151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

kynrænt sjálfræði.

22. mál
[12:02]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég skil ekki alveg, hv. þingmaður er hér með einhvers konar hringsönnun. Það eru ákveðnar aðgerðir sem verður leyfilegt að gera samkvæmt þessum lögum. Hv. þingmaður rakti ýmsar umsagnir sem komu fram þar sem verið er að mótmæla því að gera megi þessar aðgerðir. Við tókum ekki tillit til þeirra heldur er frumvarpið látið standa eins og það kom varðandi það. Það er hægt að framkvæma þessar aðgerðir sem athugasemdirnar fjölluðu um. Svo verð ég bara að mótmæla því sem kom fram varðandi meirihlutaálitið. Það sem segir og stendur í álitinu er að meiri hlutinn áréttar að innan þriggja ára frá gildistöku skuli ráðherra skipa starfshóp. Meiri hlutinn telur það orðalag veita ráðherra svigrúm til að skipa starfshópinn allt frá gildistöku laganna en eigi síðar en þremur árum eftir gildistökuna. Svo áréttar meiri hlutinn að það sé mikilvægt að fram fari umræða um málaflokkinn áfram og áréttar að það dragist ekki að skipa í starfshópinn. Meiri hlutinn segir ekkert til um hver niðurstaðan eigi að vera, enda getum við ekki vitað hver niðurstaðan verður í einhverju máli sem fjalla á um eftir að lögin taka gildi, þ.e. frá þeim tíma sem þau taka gildi og ekki síðar en eftir þrjú ár. Það er það sem segir í nefndaráliti meiri hlutans og mér fannst mikilvægt að það kæmi skýrt fram í þessari umræðu.