144. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[10:37]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Við erum hér í umræðu um fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2015. Nú þegar hafa verið haldnar margar og efnismiklar ræður. Ég hef hlustað ágætlega á þær og margir af stjórnarliðum hafa haldið ágætisræður þó að áherslur þeirra hafi að sjálfsögðu ekki verið mér að skapi nema að hluta til. Ég vil þó taka til umræðu í upphafi að fólki verður tíðrætt í stólnum um aga í ríkisfjármálum. Það hefur örlað á því í máli stjórnarliða að það er eins og núverandi stjórnarmeirihluti hafi fundið hugtakið upp og sé eiginlega að kynna það fyrir þingheimi, það sé nýmæli að nú eigi að fara að sýna aga.

Ég hef ekki mikið stofnanaminni hvað varðar þessa stofnun, ég hef ekki setið hér lengi, þetta er mitt annað kjörtímabil. Ýmsir hér hafa setið lengur en ég. En á síðasta kjörtímabili var einnig mikið rætt um aga og hafin vinna að gerð laga um opinber fjármál til þess að skýra ramma ríkisfjármálanna og hefta hendur fjárveitingavaldsins til mikilla sveiflna ár frá ári. Það rifjast upp fyrir mér og ég fer að skilja betur af hverju þeir sem einna helst voru á móti þessu frumvarpi á síðasta kjörtímabili voru einmitt Framsóknarflokkurinn. Þau hafa haldið síðan miklar ræður um agann og ég vona að viðhorf þeirra til þessa frumvarps sé að breytast samhliða þeirri auknu vitund þeirra. Það er svo mikilvægt þegar við ræðum stefnumarkandi plögg eins og fjárlagafrumvarpið að við höfum í huga hið stærra samhengi. Það þarf ekkert að minna þingheim á að við hófum síðasta kjörtímabil með gríðarlegum halla á ríkissjóði vegna skuldasöfnunar í kjölfar efnahagshrunsins og þær skuldir komu náttúrlega fyrst og fremst til af föllnum bönkum og gjaldþrota seðlabanka og síðan óx hann með uppsöfnuðum halla því að það var ekki hægt að rétta ríkissjóð af í einu vetfangi, það þurfti að gerast ár frá ári. Þar var sýndur agi en það sem við vorum gagnrýnd fyrir af bæði Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki, sem og þeirra félögum í viðskiptaráði og Samtökum atvinnulífsins, var að þeim þótti við ekki skera nógu mikið niður en afla of mikilla nýrra tekna. Það fór svolítið fyrir brjóstið á þeim að við værum að láta þá sem breiðust hefðu bökin bera hlutfallslega meira í þessari aðhaldsaðgerð, en því er ekki að leyna að niðurskurðurinn var samt verulegur, mjög mikill á sumum sviðum og tók mikið á. Hann tók á fjölskyldur og einstaklinga í samfélaginu, hann tók á fyrirtæki sem fundu fyrir og stofnanir ríkisins, það voru fáir ósnortnir af því. Við pössuðum upp á að stóreignafólk bæri sinn skerf af því, við reyndum að breyta fyrirkomulagi á innheimtu auðlindagjalda þó að enn eigi eftir að gera stóru kerfisbreytinguna í þeim efnum og við breyttum tekjuskattskerfinu til þess að þeir sem eru með lægri tekjur greiði hlutfallslega lægri skatta en þeir sem eru með hærri tekjur.

Agi í ríkisfjármálum var svo sannarlega til staðar á síðasta kjörtímabili en áherslurnar voru með allt öðru móti. Nú er komin ný ríkisstjórn og þetta eru önnur fjárlög hennar. Framlag hennar til ríkisfjármálanna hefur einna helst verið að gefa frá sér tekjustofna en finna í staðinn leiðir til þess að annaðhvort skera niður beinlínis eða í raunstærðum til ýmissa málaflokka. Svo hafa vissulega orðið einhverjar viðbætur en mér finnst líka bera á því að það er eins og sumir hér í salnum átti sig ekki á því að ekki er hægt að bera saman tölur á milli ára án þess að það sé gert að raungildi. 10 milljónir í fyrra eru hærri fjárhæð í ár þannig að ef það er verið að leggja til óbreytt framlög, eins og t.d. til barnabóta, sem þó er búið að auka í núna, þýðir það niðurskurð. Við þurfum alltaf að tala um þetta í raunstærðum. Þá langar mig áður en ég hef efnislega mál mitt um frumvarpið sjálft að ræða nokkuð sem er ekki á ábyrgð núverandi meiri hluta, það er á ábyrgð okkar allra hér inni, þ.e. framsetningin á fjárlagafrumvarpinu. Fjárlagafrumvarpið er bók bókanna á þessum vinnustað og það er mjög torskilið, það er erfitt að lesa út úr því, það er erfitt að gera samanburð á milli ára úr því og þar er blandað saman raunstærðum og verðlagi hvers árs. Við verðum að breyta framsetningu frumvarpsins svo það sé auðskilið fyrir okkur sem eigum að vinna með það. Við hér inni höfum lært að stauta okkur í gegnum þetta og þótt ég sem fyrrverandi formaður fjárlaganefndar sé ágætlega verseruð í því er algjörlega óþolandi að ýmis samtök og stofnanir, einstaklingar úti í samfélaginu sem vilja fylgjast með störfum okkar geti ekki auðveldlega áttað sig á samhengi málanna.

Þá komum við efnislega að sjálfu fjárlagafrumvarpinu. Mig langar eiginlega að byrja á því að tala með liðsinni samtaka launafólks. Miðstjórn Alþýðusambands Íslands ályktaði um fjárlagafrumvarpið og það eru stærstu samtök launafólks á Íslandi, yfir 100 þúsund manns á almennum markaði sem heyra undir Alþýðusambandið. Svo erum við með BSRB sem hefur beitt sér mjög, ekki síst hvað varðar áhyggjur af hækkun á matarskatti. Það eru stór orð sem falla í ályktun miðstjórnar Alþýðusambandsins og þar er farið yfir og minnt á þær byrðar sem launafólk hefur tekið á sig í kjölfar hrunsins og bent á að varðandi samdrátt í tekjum og aðhaldsaðgerðir hafi fólk sætt sig við það en auðvitað ætlast til þess að þegar ástandið færi að batna aftur fengi launafólk að njóta þess. Ástandið er svo sannarlega farið að batna og það gerðist ekki með tilkomu nýrrar ríkisstjórnar, það gerðist vegna verka og þrotlausrar baráttu fyrri ríkisstjórnar. Hún er ekki sambærileg vöggugjöfin sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur fékk við þá vöggugjöf sem ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar fékk í arf frá fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra. Alþýðusambandið kvartar að sjálfsögðu yfir því að verið sé að draga úr sköttum á þá eigna- og tekjumeiri og svo hart kveður að að það kemur fram í ályktuninni að ASÍ og félagsmenn þess séu að búa sig undir harðari deilur við gerð kjarasamninga en verið hafa um áratugaskeið.

Það eru margar ástæður fyrir því og ég ætla að fara yfir þær nokkrar, enda eru þetta ákveðnar vörður í stefnubreytingu fjárlaganna. Fyrst er lýst yfir miklum áhyggjum af hækkun matarskatts og ég ætla að fara aðeins nánar út í það á eftir þegar ég fer yfir áhyggjur BSRB, en svo er farið í atvinnuleysistryggingar. Þær eru teknar til umræðu af því að það á núna að taka þriggja ára atvinnuleysistryggingatímabil og stytta í tvö og hálft ár. Þetta er einhliða ákvörðun ríkisstjórnarinnar, þetta er ekki ákvörðun sem er tekin að höfðu samráði við aðila vinnumarkaðarins og þá auðvitað fyrst og fremst launafólk. Þetta er framfærslutryggingakerfi launafólks og það er nýlunda á Íslandi að ríkisvaldið skerði einhliða með lögum atvinnuleysistryggingaréttindi launafólks með þessum hætti. Alþýðusamband Íslands hefur líka miklar áhyggjur af starfsendurhæfingunni. Það er búið að byggja upp starfsendurhæfingu til þess að reyna að hjálpa fólki og auðvelda það að grípa inn í fyrr og gera fólki sem slasast eða veikist kleift að hæfast til þátttöku á vinnumarkaði aftur. Ríkið hefur einnig gert samkomulag um að það sé eitt heildstætt kerfi fyrir alla, óháð því hvort þeir eiga vinnumarkaðstengd réttindi eða ekki, af því að það er mjög mikilvægt að við sitjum öll við sama borð þegar kemur að möguleikum til endurhæfingar og hæfingar. Þarna er með lögum og án samkomulags verið að skerða framlög í starfsendurhæfingarsjóðina. Og þetta beinist auðvitað gegn launafólki því að það er eingöngu einn slíkur sjóður starfandi í dag og hann er sjóður sem aðilar vinnumarkaðarins komu á laggirnar.

Þriðji liðurinn sem lýtur að vinnumarkaðsmálum og starfsendurhæfingarmálum er jöfnun á örorkubyrði lífeyrissjóða. Þarna fær maður tilfinninguna sem ég hef oft fengið áður þegar maður er að fjalla um mál núverandi ríkisstjórnar, það er eins og fólk skilji ekki hvað býr undir í ákveðinni löggjöf. Hér er því lýst yfir í frumvarpinu að það eigi að lækka framlögin um einar 650 milljónir, að mig minnir, til þess að jafna örorkubyrðina og svo eigi ár frá ári að trappa þetta niður og hætta þessu. Þetta er náttúrlega aðför að lífeyrisréttindum fólks á almenna vinnumarkaðnum því að bara yfirlýsingin um að það eigi að lokum að fella þetta ákvæði úr gildi felur í sér að nú þegar þurfa lífeyrissjóðirnir að uppreikna réttindi fólks, fólks sem er búið að vinna alla sína tíð á almennum vinnumarkaði í lífeyrissjóðum þeim tengdum. Það mun þegar fara að fá skerðingar á lífeyri sinn út af þessari breytingu og breytingartillaga meiri hlutans upp á einar 200 milljónir breytir engu þar um. Fyrirheitið um að afnema þetta er það sem ræður endurreikningnum. Þá ber lífeyrissjóðunum lögbundin skylda til að endurreikna réttindin. Þannig að þessi niðurskurður er jólagjöf til lífeyrisþega og er heldur svæsin þar sem verið er að skerða réttindi þeirra til langframa með ákvörðuninni. Eins og ég segi held ég að það sé þekkingarleysi á virkni löggjafarinnar sem sést allt of oft á þessu kjörtímabili, því að ég trúi ekki að það sé stefnan hjá þessari ríkisstjórn að fara að skerða réttindi fólks á almennum markaði.

Þá erum við komin að heilbrigðismálunum. ASÍ lýsir yfir miklum áhyggjum af því að greiðsluþátttaka sjúklinga hafi aukist. Hún hefur aukist, það eru 1,9 milljarðar sem við í minni hlutanum leggjum til að verði aukið inn í sjúkratryggingar af því að það er niðurskurður þessarar ríkisstjórnar í heilbrigðiskerfinu á þeirri hlið, þ.e. aukin greiðsluþátttaka sjúklinga vegna heilbrigðisþjónustu, aukinn kostnaður vegna ýmissa hjálpartækja. Það á líka að auka lyfjakostnað þó að það eigi ekki að auka hann jafn mikið og lagt var upp með og Alþýðusamband Íslands, eðlilega sem talsmenn launafólks, hafa af þessu gríðarlegar áhyggjur. Það er margt lágtekjufólk sem lendir í alvarlegum vandræðum, það verður að neita sér um heilbrigðisþjónustu af því að það hefur ekki ráð á henni sem leiðir auðvitað til þess að fólk er orðið miklu veikara en nauðsyn krefur þegar það loksins kemst undir læknishendur. Þá held ég að það skipti máli, ef það er stefnan hjá núverandi ríkisstjórn að auka álögur á sjúklinga, að gefin sé út pólitísk stefnuyfirlýsing um það og við getum tekist á um þá stefnu. En mikið af þessum hækkunum kemur ekki til með lagabreytingum heldur reglugerðarbreytingum þannig að þingmenn sem sitja í þessum sal hafa tekið þátt í ákvörðuninni í gegnum fjárlög en þeir átta sig síðan ekki á, held ég að hljóti að vera, ég ætla að gefa mér það, hvílíkar álögur þeir eru að samþykkja á sjúklinga á Íslandi. Við í minni hlutanum erum að gefa fólki í þessum sal tækifæri til þess að endurmeta þessa stefnu, hvort það sé tilbúið til að styðja þá stefnumörkun að auka álögur á sjúklinga. Við viljum þvert á móti draga úr þeim álögum. Nú þegar er greiðsluþátttaka sjúklinga á Íslandi allt of mikil. Við hér í salnum eigum að ná samstöðu um hvað við teljum ásættanlega greiðsluþátttöku. Í ýmsum kerfum erlendis er hún engin, auðvitað eru þetta flókin kerfi og það er erfitt að alhæfa um einstaka kerfi og gera samanburð á milli landa. Það er gerður samanburður á heilbrigðiskerfum en við þurfum að ákveða því að við borgum heilbrigðiskerfið með sköttunum okkar og þjónustugjöld eiga að vera í algjöru lágmarki. Við þurfum að setja okkur þau markmið að komast þangað, að álögur á sjúklinga verði sem allra minnstar og ákveða í hvaða skrefum við ætlum að ná því. Tillögur minni hlutans um framlög til sjúkratrygginga eru fyrsta skrefið í því. En það er fleira sem fólk hjá Alþýðusambandinu hefur áhyggjur af og það kemur að húsnæðismálunum.

Það er húsnæðisskortur á Íslandi. Ungt fólk kemst ekki út á leigumarkaðinn, getur ekki keypt sér eigið húsnæði og mikið af meðaltekjufólki kemst ekki í gegnum greiðslumat til að kaupa sér eigið húsnæði og fer út á leigumarkað með mjög hárri leigu og miklu óöryggi, þarf jafnvel að flytja árlega og flytja börnin sín á milli hverfa. Það eru óviðunandi uppvaxtarskilyrði fyrir börn, að geta ekki verið í skólanum sínum af því að foreldrunum var sagt upp húsnæði. En það var ekkert lagt fram til húsnæðismála, eða nánast ekkert, í fjárlagafrumvarpinu og nú eru komnar inn 400 millj. kr. í húsaleigubætur. Eins og hv. þm. Lúðvík Geirsson fór svo vel yfir í erindi sínu í gærkvöldi er þetta aðeins um fimmtungur eða fjórðungur þess sem þyrfti að koma inn til að þær yrðu jafnstæðar vaxtabótum eins og til hefur staðið með nýju húsnæðisbótakerfi, en því miður hafa fögur fyrirheit húsnæðismálaráðherrans ekki fært okkur eitt einasta frumvarp á sviði húsnæðismála það sem af er þessu kjörtímabili.

Í menntamálum hefur Alþýðusamband Íslands miklar áhyggjur og lýsir yfir furðu á því að þegar eigi að efla verk- og starfs- og tæknimenntun sé dregið hlutfallslega úr framlögum til verkmenntaskóla og Vinnustaðanámssjóður þurrkaður út og að verið sé að skerða möguleika fullorðins fólks til náms í framhaldsskólum verulega. Hér eru margir búnir að tala um menntamálin og úr mínum flokki hafa talað af mikilli þekkingu og innsæi bæði hv. þm. Oddný G. Harðardóttir sem og Guðbjartur Hannesson. Ég lagði fram fyrirspurn til hæstv. menntamálaráðherra í haust varðandi skólagjaldalán út af háskólanámi og frumgreinanámi og vaxtakostnað ríkisins af því. Það kemur í ljós að ef við horfum á árin 2012–2014 er meðallán vegna frumgreinanáms fyrir hvern einstakling á bilinu 212–275 þús. kr. á ári þannig að fyrir fólkið sem núna getur ekki farið í framhaldsskóla, af því að það er orðið 25 ára, er þetta valkosturinn. Ef það vill fara og ljúka stúdentsprófi sínu eða öðlast réttindi til háskólanáms skal það vesgú bera mun meiri kostnað. Það er mikill kostnaður af því nú þegar í dag fyrir fólk og krefst mikils átaks fyrir fólk sem er þegar komið út á vinnumarkað, er jafnvel komið með fjölskyldu en vill ljúka sinni formlegu menntun. Nú erum við að bæta við, þ.e. stjórnarmeirihlutinn, 212–275 þús. kr. bara í skólagjöld.

Þarna kalla ég líka eftir því að við fáum skýra stefnumótun stjórnvalda og tökumst á um stefnuna út frá yfirlýstri stefnu en ekki eingöngu einhverjum — hérna þarf maður að lesa út úr — já, það er verið að lækka framlögin, það á líklega að fara enn frekar í einkarekstur en það er aldrei sagt beint út. Nú er ég alfarið á móti því að auka einkarekstur í bæði heilbrigðis- og menntakerfi og mun berjast gegn því, en það er eðlilegra að fólk þori að orða stefnu sína og geri þetta ekki smám saman og grafi undan opinbera kerfinu, kerfi sem hefur verið byggt upp hér áratugum saman, kerfi sem fólk ber traust til og sem þjónustar alla óháð efnahag og aðgengi er jafnt óháð efnahag. Ég vil fá umræðu um stefnuna og ég held að almenningur vilji fá umræðu um stefnuna því að stjórnarmeirihlutinn er í andstöðu við almennan vilja í landinu. Það er kannski þess vegna sem þau vilja ekki segja okkur á hvaða leið þau eru.

BSRB hefur farið ágætlega yfir Rannsóknasetur verslunarinnar frá árinu 2011 varðandi áhrif gengisbreytinga á verðlag. Þau lýsa yfir miklum áhyggjum af hækkun matarskatts og benda á að hækkun á skatti skilar sér mjög greiðlega inn í verðlag en lækkun á skatti mun síður. Þau færa fyrir því ágætisrök í umsögn sinni um eitt af tekjuöflunarfrumvörpunum hér að ekki einasta er það þannig að lágtekjufólk eyði hlutfallslega meira af ráðstöfunartekjum sínum í mat og drykk heldur muni þetta bitna enn harðar á þeim hópi vegna þessara áhrifa skattahækkana og mismunandi vægis skattahækkana og skattalækkana á verðlag.

Ég vil nota tækifærið og koma aðeins inn á málefni Íbúðalánasjóðs. Mér finnst hafa farið frekar lítið fyrir þeim í umræðunni. Það voru 3,3 milljarðar settir í Íbúðalánasjóð samkvæmt fjárlagafrumvarpinu. Það voru 4,5 árið 2014. Á þessu ári eru það 2 milljarðar til þess að styrkja eiginfjárgrunn sjóðsins og 1,3 vegna leiðréttingar húsnæðislána. Svo koma breytingartillögur núna við 2. umr. og í staðinn fyrir að leggja sjóðnum til 3,3 milljarða verða það 5,7 milljarðar. Þá er gott að muna að við höfum nú þegar frá hruni lagt sjóðnum til 50,5 milljarða, þannig að þetta eru 5,7 milljarðar til viðbótar. Hluti af því er vegna þess að verið er að flýta leiðréttingunni, stóra millifærslan á að ganga hraðar fyrir sig en ella og mér sýnist að kostnaður ríkissjóðs af henni vegna Íbúðalánasjóðs verði þá á næsta ári 3,7 milljarðar. Það er það sem ég get lesið út úr þessu en ég held að það sé tímabært hvað varðar stóru millifærsluna að við förum að fá almennilegt yfirlit yfir fjárstreymi í henni og hver sé að fá hvað og hver beri kostnaðinn. Við vorum öll sammála um það að núna þegar tækifærið gafst til, af því að það var orðið skýrt hverjir væru kröfuhafar í gömlu bankana, væri eðlilegt að skattleggja það.

Ég held að það sé að verða ljóst að æ meira af þessari millifærslu leggst með beinum hætti á ríkissjóð. Við skulum fara að fá almennilegt yfirlit yfir þetta. Forstjóri Íbúðalánasjóðs var í viðtali hér í vikunni og hann talaði um uppgreiðsluvandann sem myllustein um háls Íbúðalánasjóðs og benti á að hann væri það enn, þar hefði ekki orðið breyting á þó að það eigi að gera breytingu á rekstrarfyrirkomulagi sjóðsins, en ég bendi á að ekkert frumvarp þess efnis er komið inn í þingið. Óljóst er hvenær við eigum von á einhverjum breytingum af þessu tagi og á meðan streyma milljarðar árlega úr ríkissjóði í Íbúðalánasjóð. Ég vil nota tækifærið og segja að í stóru millifærslunni, sem mun kosta ansi mikið, hefði verið hægt að ná mjög góðum árangri með afskriftum fyrir hópana sem voru að kaupa eignir á árunum 2005–2008 og með aukningu í húsaleigubótum, svo það gagnaðist líka leigjendum, og hærri vaxtabótum. Það leiðir mig, herra forseti, inn í vaxtabótakerfið.

Mig langar að benda á að á þeim erfiðu árum, rétt eftir hrun, þegar hér var sem mestur niðurskurður voru raunframlög til vaxtabóta, eins og árið 2011 sem var ekkert smáerfitt fjárlagaár, 20 milljarðar. Í dag í fjárlagafrumvarpinu verða raunframlög til vaxtabóta 8 milljarðar. Það er búið að lækka vaxtabætur um 12 milljarða á fjórum árum, úr 20 í 8, og það endurspeglar á engan hátt það að það sé einhver lægri vaxtakostnaður hjá heimilunum. Hann lækkar eitthvað í stóru millifærslunni en ekki sem þessu nemur. Þarna er gefið með annarri hendinni en tekið með hinni. Íslenskur almenningur mun sitja uppi með það að hafa verið narraður, það var aldrei sagt beinum orðum hvað átti að gera, það var bara með breytingum í gegnum fjárlög eftir fjárlög aukið á ójöfnuð. Við fórum í gegnum slíkt skeið frá 1995–2007. Við vitum hvernig svona er unnið, nema að þeir sem þá stjórnuðu voru þó opinskárri með stefnu sína. Hér er hún laumufarþegi.

Þá komum við yfir í heilbrigðismálin aftur. Ég ætlaði örlítið að fara yfir Landspítala. Það er bætt í milljarði og þar komum við aftur að raunstærðum. Hæstv. forsætisráðherra segir okkur hér glaður og rjóður í kinnum að það hafi aldrei verið settir jafn miklir fjármunir í Landspítala. Auðvitað má teygja og toga tölfræði en það er ágætt að minna hæstv. forsætisráðherra á það að árið 2009, árið eftir hrun, var hlutfall af framlögum til Landspítala það sama sem hlutfall af vergri landsframleiðslu og það verður á árinu 2015 þegar tekjur ríkissjóðs eru að aukast umtalsvert en í raun er um raunlækkun að ræða því að álag á spítalann eykst ár frá ári. Þar að auki varðandi Landspítalann er það mikið áhyggjuefni að ekki liggja fyrir skýr fyrirheit um uppbyggingu, það er búið að setja fjármuni núna í að hanna meðferðarkjarna og fara í uppbyggingu á sjúkrahótelinu en ég skil ekki af hverju ráðherra er ekki búinn að stíga fram, segja okkur stoltur frá þeim fyrirætlunum og hvað gerist síðan árin þar á eftir. Ýmsir hefðu nú boðað til blaðamannafundar fyrir minna. Þetta eru um 875 milljónir sem eiga að fara í hönnun á Landspítalanum en við verðum að fá að vita hvað á að fylgja í kjölfarið og hvaða taktur á að vera í þessari uppbyggingu. Það virðist vera, í ljósi þess hversu lítill vilji er til þess að upplýsa okkur, að það liggi bara ekki fyrir og það í miðju læknaverkfalli, því fyrsta í sögunni, þá er framtíð Landspítalans í uppnámi. Ég hef óskað eftir sérstakri umræðu við heilbrigðisráðherra um stöðu og framtíð Landspítalans og er búin að bíða í nokkrar vikur þannig að áhuginn virðist ekki vera mikill á málinu hjá ráðherra. Ég lýsi sérstökum áhyggjum af því.

Ég læt málefni um fæðingarorlof og almannatryggingar bíða næstu ræðu minnar í málinu en mig langar að lokum að víkja að stóru siðferðismáli sem eru framlög okkar, einnar ríkustu þjóðar í heimi, til þróunarmála. Íslendingar hafa veitt þróunaraðstoð árum saman og stór hluti þeirra fjármuna sem við leggjum til fer í að tryggja fólki í fátækustu ríkjum heims aðgengi að hreinu vatni, byggja upp innviði eins og barnaskóla og heilsugæslu og að veita konum fæðingaraðstoð til þess að draga úr dánartíðni mæðra og barna. Það er ágætt að við munum það að helsta ástæða þess að konur dóu fyrir aldur fram áður fyrr á Íslandi var þegar þær dóu af barnsförum. Það eru margar konur í fátækustu löndum heimsins sem búa við þann ótta að þær geti dáið þegar þær eignast næsta barn. Fæðingartíðni er að fara niður í heiminum en hún er einna mest í fátækustu ríkjunum og það er nú þannig í mannfjöldaþróuninni að um leið og fólk fer að hafa betur í sig og á dregur úr fæðingartíðni. Í fátækustu ríkjunum er fæðingartíðni enn há og konur lifa við þann ótta að næst þegar þær eignast barn deyi þær og þær deyja ekki aðeins heldur deyja þær frá litlum börnum sem reiða sig á þær.

Við erum að tala um grundvallarmál. Engilbert Guðmundsson, forstjóri Þróunarsamvinnustofnunar, bendir okkur á að Íslendingar láta minnst af hendi rakna til þróunarsamvinnu á hvern íbúa og sem hlutfall af þjóðartekjum af öllum þjóðum í Vestur- og Norður-Evrópu. Það er því miður ekki bara minnst, segir hann, heldur langminnst. Hann hvetur alþingismenn til þess að vinna í samræmi við þá áætlun um þróunarsamvinnu sem var lögð fram á síðasta kjörtímabili og samþykkt af öllum þingmönnum nema einum, hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur, formanni fjárlaganefndar. Ég hvet stjórnarmeirihlutann á Alþingi Íslendinga til að láta ekki hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur móta fyrir sig stefnuna í þróunarsamvinnu þvert á það sem þeir samþykktu á síðasta kjörtímabili.

Við þurfum að gæta aðhalds, við þurfum að forgangsraða, við þurfum að passa upp á jöfnuð hér á landi og að stuðla að honum en ekki vinna gegn honum. Við höfum algjörlega bolmagn sem ein af ríkustu þjóðum í heimi til að rétta hjálparhönd til fátækustu ríkja í heimi.