141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[12:29]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er sannarlega mikilvægt að rökræða við umræðu um fjárlög lýðveldisins um stöðu og horfur í ríkisfjármálum. Það er alveg rétt að margt hefur þurft að víkja vegna skuldastöðu ríkissjóðs til að draga úr vaxtakostnaði og ná jafnvægi í ríkisfjármálin sem hefur að mörgu leyti tekist vel. Auðvitað eru um leið mörg mál sem er brýnt að veita fjármagn til. Kröfurnar á ríkissjóð, eins og hv. þingmaður nefndi, eru óhemju miklar, sérstaklega í málum sem snúa að innviðum samfélagsins, velferðarmálum, menntunarmálum, samgöngumálum og löggæslumálum, eins og við þekkjum úr yfirferðinni í fjárlaganefnd, sérstaklega eftir fundina með sveitarfélögunum hringinn í kringum landið.

Örfá dæmi sem ég vildi nefna og við getum rökrætt um þau: Er borð fyrir báru til að fara til dæmis í byggingu á Húsi íslenskra fræða upp á hálfan milljarð? Er borð fyrir báru til að fara í tækjakaup á Landspítalanum fyrir 600 millj., Sjúkrahúsið á Akureyri fyrir 50 milljónir? Svona má tína fjöldamargt til úr öllum þeim tillögufjölda sem hér liggur fyrir. Ég held að langflestar tillögurnar séu mjög brýnar. Við erum að tala um að halda samneyslunni í jafnvægi, stigi velferðarþjónustunnar viðunandi. Það er verið að gefa aðeins í aftur í menntunarmálum, sérstaklega er varðar framhaldsskólastigið þar sem brottfallið hefur drottnað yfir skólastiginu með allt of neikvæðum hætti í ár og áratugi og lítið sem ekki neitt áunnist í þeim efnum. Það eru allt mál sem við getum rökrætt um hvort geti beðið lengur, hvort við eigum að vera að reka það allt í raun og veru á lánum, eins og við erum að gera að hluta.

Ég held samt að það sé forsvaranlegt að fara í flest þeirra verkefna og vildi nefna sérstaklega mál sem við vorum að ræða í gær og sem bíður enn 3. umr. og snýr að löggæslumálum. Ég veit að þau mál snerta mjög kjördæmi þingmannsins þar sem stór landsvæði eru undir lítilli löggæslu. (Forseti hringir.) Ég ætlaði að inna hann eftir viðhorfum til þess, hvort það sé ekki eitt af brýnustu málunum sem við þurfum (Forseti hringir.) að leiða til lykta fyrir 3. umr., að það komi óskiptur pottur til grunnþjónustu löggæslumála (Forseti hringir.) úti á landi.