148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[21:21]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég átti svo sem ekki von á öðru frá hv. þingmanni en að hann stæði við það sem hann hefur haldið fram. Vissulega benti fjármálaráð á að það væri æskilegt. Ég er nánast fullviss um að það verði til mikilla bóta í ríkisfjármálaáætlun og sem hluti af stefnumörkunarferli er alveg eins líklegt að við sjáum það sagt berum orðum, talandi um t.d. sjálfbærnihugtakið sem er vísað til almennt og í lögum af efnahagslegum toga.

En þá vil ég spyrja í seinna andsvari um sjálfbærnihugtakið, ef við höldum okkur við það, því að það var athyglisvert samtal hér á milli hv. þm. Ara Trausta Guðmundssonar og Njáls Friðberts Traustasonar um sjálfbærni þegar kemur að öðrum en beinum efnahagslegum þáttum, þá í ferðaþjónustu eins og kom fram í þeirra samtali, sem ég veit að hv. þingmaður hlustaði á og kom inn þetta hugtak á í sinni ræðu. Svo er í umsögn Samtaka iðnaðarins talað um sjálfbærni gagnvart því að láta ekki hjá liggja að fjárfesta í innviðum eða innri gerð eins og samgöngum. Vill hv. þingmaður segja eitthvað um þetta, því að lög um opinber fjármál ganga ekki svo langt að teygja þetta hugtak yfir á þessa þætti?