150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[17:51]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Þetta er í tilefni af viðbótarsamningi íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar. Í sínum innsta kjarna snýst þetta mál um skipulagslega breytingu en skipulagslega breytingin felst í því að tilteknir starfsmenn sem hafa verið ríkisstarfsmenn munu verða starfsmenn þjóðkirkjunnar, þeir verða ráðnir en ekki skipaðir o.s.frv. En í örlítið víðara samhengi er verið að stíga skref sem felur í sér að þjóðkirkjan er að verða að fullu og öllu þjóðkirkja en ekki ríkiskirkja. Með hæfilegri einföldun má líta svo á að kirkjujarðasamkomulagið frá 1997 sem hér hefur verið vitnað til hafi falið í sér skilnað að borði og sæng en sú skipulagsbreyting sem hér liggur fyrir feli þá í sér lögskilnað á milli þessara aðila.

Fátt eða ekkert er nýtt undir sólinni. Þessi umræða um stöðu kirkjunnar og samband ríkis og kirkju er alls ekki ný. Minnumst þess að við erum stödd á vettvangi elstu stofnunar landsins og kirkjan er náttúrlega næstelst eins og menn þekkja. Mig langar til að vitna í gagnmerka ævisögu Þórhalls Bjarnarsonar biskups. Þessi bók heitir Brautryðjandinn og er eftir kunnan rithöfund og fræðimann, Óskar Guðmundsson. Hann segir á einum stað, með leyfi forseta:

„Á seinni hluta 19. aldar varð mikil viðhorfsbreyting gagnvart ríkisvaldi og kirkjustjórn. Hugmyndir um borgaraleg mannréttindi tóku á sig skýrara form, krafa um frelsi manna til ákvarðana, einnig um rétt, til að mynda félagasamtök, varð háværari og ríkisvaldið viðurkenndi þennan rétt smám saman með löggjöf. Þetta á við um kröfur í anda borgaralegs húmanisma í Danmörku og á Íslandi. Þannig hafði t.d. Einar Ásmundsson verið meðal fyrstu manna og fengið Þingeyinga marga til liðs við sig til að krefjast trúfrelsis í löggjöfinni. Innan kirkjunnar á Íslandi var líka vaxandi fylgi við viðhorf af þessum toga og hélst í hendur við þjóðfélagsþróunina. Með stjórnarskránni 1874 var trúfrelsi viðurkennt en kirkjan var ríkiskirkja áfram, í margvíslegum skilningi miklu fremur ríkiskirkja en þjóðkirkja að mati margra. Næstu árin fram yfir aldamót var mikil umræða“ — og þá erum við að tala um aldamótin 1900 — „um aðskilnað ríkis og kirkju, fríkirkju, og fram komu óskir um að breytingar yrðu gerðar á lögum í átt til rýmkunar á sjálfsákvörðunarrétti safnaða. Þegar nær dró aldamótum fjölgaði kirkjum og trúarhópum utan þjóðkirkjunnar. Með auknum sjálfsákvörðunarrétti safnaða var þeim gert auðveldara að stofna fríkirkjur sem bæði öttu kappi og höfðu samstarf við þjóðkirkju prestanna.“

Hér lýkur tilvitnun sem er á bls. 259 í þessari ágætu og merku bók. Okkur má vera ljóst, herra forseti, að sú umræða sem hér er uppi er alls ekki ný. Hér er mikilvæg þróun. Ég get alveg tekið undir að það hefði verið æskilegt að þetta frumvarp hefði komið fram eilítið fyrr, að það hefði gefist eilítið meiri tími á Alþingi til að fjalla um það. En eins og hv. þm. Brynjar Níelsson, sem er nýgenginn í salinn, minnti á í sinni ágætu ræðu fyrr í dag er þetta mjög einföld breyting. Líkt og er rakið í greinargerð var það hinn 6. september sl. að fulltrúar íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar undirrituðu viðbótarsamning, sem svo er kallaður, um endurskoðun á samkomulagi milli sömu aðila um kirkjujarðir og launagreiðslur presta og starfsmanna þjóðkirkjunnar frá 10. janúar 1997 — það er hið títtnefnda kirkjujarðasamkomulag — og samningi íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar um rekstrarkostnað vegna prestsembætta og prófasta, rekstrarkostnað biskupsstofu, framlag til Kristnisjóðs og sérframlög til þjóðkirkjunnar frá 4. september 1998. Það er rakið í greinargerð enn fremur að tilefni þessa frumvarps sem við erum að fjalla um hér sé þessi umræddi viðbótarsamningur milli íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar frá því í september sl. og viljayfirlýsing sömu aðila sem fylgdi honum. Samkvæmt samningnum skal kirkjan m.a. annast launagreiðslur til alls starfsfólks síns frá 1. janúar 2020, eftir þrjár vikur, í stað þess að biskup Íslands, vígslubiskupar, 138 starfandi prestar og prófastar þjóðkirkjunnar og 18 starfsmenn biskupsstofu þiggi laun úr ríkissjóði. Þarna kemur fram að þetta leiði til þess að þessir starfsmenn þjóðkirkjunnar muni ekki lengur teljast til embættismanna eða starfsmanna ríkisins heldur verði þeir starfsmenn þjóðkirkjunnar. Þetta er innsti kjarni þess máls sem við erum að fjalla um.

Það er rakið í greinargerð að í frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem eru taldar nauðsynlegar svo efna megi framangreindan viðbótarsamning milli ríkis og kirkju og þar segir að þar sem í samningnum felist sú meginbreyting að kirkjan taki sjálf við öllum starfsmönnum sínum og starfsmannamálum, auk launagreiðslna til þeirra frá 1. janúar 2020, miði þær breytingar sem hér eru lagðar til fyrst og fremst að því að ná því markmiði. Það er enn fremur rakið í greinargerð að þar sem þeir starfsmenn þjóðkirkjunnar sem eru taldir upp í áðurnefndum lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar muni ekki lengur teljast til embættismanna eða starfsmanna ríkisins heldur verði starfsmenn þjóðkirkjunnar séu lagðar til orðalagsbreytingar. Það er m.a. lagt til að í staðinn fyrir „embætti“ eða tengd orð komi orðin „starf“ og „þjónusta“. Það er sömuleiðis lagt til að hverfa frá orðalaginu að „setja eða „skipa“ í embætti og taka í staðinn upp orðalagið „ráða til starfa“. Síðan er það boðað að í framhaldinu muni verða gerð frekari breyting á lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar með það að markmiði að þjóðkirkjan setji sér eigin starfsreglur um hin ýmsu mál á vettvangi sínum frekar en að kveðið sé á um þetta í lögum. Þetta er boðað í framhaldi af þessu.

Í greinargerð með frumvarpinu er fjallað um samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar. Þetta snertir kannski ekki alþjóðlegar skuldbindingar en það er rifjað upp, svo sem eins og hefur verið nefnt í þessari umræðu, að í 62. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, segi að hin evangelíska lúterska kirkja skuli vera þjóðkirkja á Íslandi og skuli ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda. Þetta er orðalag lýðveldisstjórnarskrárinnar frá 1944 sem eins og menn vita og kannast við var borin undir þjóðaratkvæði og samþykkt af öllum þorra manna. Það er rétt að geta þess að í 79. gr. stjórnarskrárinnar segir svo, með leyfi forseta:

„Nú samþykkir Alþingi breytingu á kirkjuskipun ríkisins samkvæmt 62. gr., og skal þá leggja það mál undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar, og skal atkvæðagreiðslan vera leynileg.“

Þjóðkirkjan hefur náttúrlega algjöra sérstöðu hér. Þjóðkirkjan nýtur sérstakrar verndar í stjórnarskrá sem er samþykkt af öllum þorra manna 1944 og sömuleiðis er alveg ástæða til að nefna að það var efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október 2012 um tillögur stjórnlagaráðs og þar var spurt, með leyfi forseta: „Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi?“

Af þeim sem tóku afstöðu voru 57,1% sem sögðu já og 42,9% nei þannig að það er algerlega tryggur, öruggur meiri hluti í þessari þjóðaratkvæðagreiðslu og sýnir náttúrlega fram á sterka stöðu kirkjunnar í hugum fólks. Ýmsir ágætir ræðumenn hafa nefnt og farið yfir það hvað kirkjan gegnir miklu hlutverki. Henni eru falin mjög ábyrgðarmikil og vandasöm efni sem þarf ekki að rekja. En auðvitað er það svo að kirkjan er samofin sögu þjóðarinnar, menningu og lífi fólksins í landinu á öllum öldum fram á þennan dag, þannig að með vissum hætti finnur maður til þess að þetta er eilítið söguleg stund. Það er ekki síst að frumkvæði kirkjunnar að hún verði sjálfstæð, að hún verði og sé þjóðkirkja en ekki ríkiskirkja. Ég hef rifjað upp umræður frá því fyrir margt löngu sem hafa verið á nákvæmlega sömu nótum og við ræðum á hér. Það er nú gaman að sjá þetta mál fyrir sér í hinu sögulega samhengi.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu.