144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

ósk um fund með stjórnarformanni Fjármálaeftirlitsins.

[13:39]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Ég vil taka undir með öðrum þingmönnum og benda á að það eftirlitshlutverk sem Alþingi á að hafa, þingmenn og þingnefndir, gagnvart framkvæmdarvaldinu er mjög veikt. Það er hægt að kalla eftir að ráðherra komi og í tilfelli ráðherra er sagt einhvern veginn: Hann ætti nú helst að koma. En í tilfelli annarra aðila, sem reka stofnanir ríkisins í samfélaginu er það greinilega mjög veikt. Alþingi hefur ekki þá heimild sem mörg önnur löggjafarþing hafa og sér í lagi nefndir. Þegar þau kalla til forsvarsmenn stofnana þá skulu þeir mæta og það er skylda. Það er rétt eins og þegar menn eru kvaddir fyrir dómstóla, þeir skulu mæta. Þetta er ekki staðan hérna.

Það er líka þannig þegar kemur að sannleiksskyldu ráðherra. Nú erum við að fara í óundirbúnar fyrirspurnir á eftir þessum lið. Þá er það sannleiksskylda ráðherra að veita upplýsingar sem liggja fyrir. Hvað með upplýsingar sem hann hefur ekki vitneskju um eða liggja ekki fyrir, á hann að rannsaka það, á hann að skoða það? Nei. Hvað með að gefa villandi upplýsingar? Nei, það er ekki í lögum. Við í þingflokki Pírata erum hins vegar búin að kalla eftir því að þetta sé sett í lög (Forseti hringir.) eins og í öðrum ríkjum. Eftirlitsskylda Alþingis er veik.