150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[11:45]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég held að það sé alveg rétt hjá hv. þingmanni að einmitt vegna eðlis stjórnskipunar okkar séum við með, ef við getum kallað það svo, þingbundið framkvæmdarvald eða þingbundna ríkisstjórn, en því miður er það stundum í framkvæmd akkúrat á hinn veginn, við erum með ríkisstjórnarbundið löggjafarvald. Á endanum eru teknar ákvarðanir innan einstakra ráðuneyta eða við ríkisstjórnarborðið sem eru svo bara keyrðar hér í gegn, stimplaðar og samþykktar, oft án mikillar umræðu. Þetta tiltekna mál er nákvæmlega þannig vaxið. Það kemur fram mjög seint og það er alveg augljóst að þinginu gefst afskaplega takmarkaður tími til að vinna eitthvað með málið, t.d. í nefnd, kalla eftir nauðsynlegum umsögnum um það og eftir atvikum, eins og ég er að kalla eftir hér, að fram komi eitthvert lögfræðilegt álit á því hvort samningur sem þessi standist lög um opinber fjármál. Mér finnst það vera lágmarkskrafa. Það er í hæsta máta óeðlilegt að framkvæmdarvaldið geti með samningsgerð sem þessari bundið hendur löggjafans til ára og jafnvel áratuga án þess að þingið hafi nokkurn tímann komið að því að samþykkja einu sinni þann samning sem liggur undir. Það geta ekki verið eðlileg vinnubrögð.

Í þessari umræðu hefur ítrekað verið bent á að ótímabundin lengd þessa samnings gangi þvert gegn meginmarkmiðinu í 40. gr. laga um opinber fjármál, um að samningar skuli ekki gerðir til lengri tíma en fimm ára, og þá hljóti að þurfa í það minnsta ítarlegan rökstuðning fyrir því hvers vegna vikið sé frá þeirri meginreglu. Ég sakna þess rökstuðnings og ég sakna þess í raun og veru (Forseti hringir.) að við höfum ekki meiri prinsippfestu í þessum sal til að fylgja þeim lögum sem við höfum sjálf sett.