150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[13:25]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir svarið, það var ansi hreinskilnislegt. Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta mál á Indlandi — fyrir utan það að það var býsna stórt mál þar og vakti heimsathygli vegna þess að þetta er deilumál sem hafði staðið yfir frá 1988, ef mig misminnir ekki, og líka það að dómurinn fól í sér úrlausn ákveðinnar þrætu sem átti rætur sínar að rekja til Mahal-tímabilsins, um 1600, sem er um það leyti sem siðaskiptin urðu hér.

Til að reyna að setja þetta í samhengi, á þeim takmarkaða tíma sem ég hef hér, finnst mér þessi stofnanalega breyting sem gerðist í siðaskiptunum hljóta að fela í sér í einhverjum skilningi eignaupptöku frá kaþólsku kirkjunni vegna þess að sú stofnun varð af þeim eignum. Þá spyr maður: Hefði átt að greiða til Vatíkansins í Róm eða hvernig sem það er fyrir þær eignir? Kannski ekki, ég er reyndar sammála hv. þingmanni að þetta var í rauninni samfélagsleg breyting og jafnvel ákveðin bylting og yfirleitt er ekki borgað fyrir byltingar eftir á. Engu að síður passar þetta allt saman inn í þetta samhengi um það á hvaða tímapunkti stórar breytingar á samfélagsformum krefjast þess að gert sé upp við gamlar skuldir. Nú höfum við talað um það í þessari umræðu hvort búið sé að fullgreiða fyrir kirkjujarðirnar og ég held að alveg sé hægt að færa rök fyrir því að aðskilnaður ríkis og kirkju sé ansi stór bylting og kannski (Forseti hringir.) er bara búið að fullgreiða nú þegar fyrir þær eignir, alveg óháð verðmati, hreinlega út frá þeirri samfélagslegu byltingu sem við stöndum frammi fyrir.