139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

kynning nýs Icesave-samnings.

[10:35]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Í fyrsta lagi eru fréttir um mögulega kynningu á óorðnum samningi eða óorðnum hlutum ekki frá fjármálaráðuneytinu komnar (Gripið fram í: En fjármálaráðherra?) og ég hygg að við mundum reyna að standa að því á þann hátt sem eðlilegast er. Væntanlega mundi samninganefndin fyrst kynna formönnum stjórnmálaflokkanna (Gripið fram í.) þá niðurstöðu sem hún hefði komist að eða þann mögulega samning sem kynni þá að vera hægt að gera. Þetta snýr einfaldlega þannig að samninganefndin er að reyna til þrautar að komast að niðurstöðu um það hvernig samningur gæti litið út, hvert gæti orðið efnisinntak hans. (Gripið fram í: Af hverju?) Hann verður að sjálfsögðu ekki undirritaður á því stigi málsins. Miðað við forsögu þessa máls og það að samningaviðræðurnar fóru af stað á grundvelli samstöðu eða samráðs sem tókst að byggja upp á öndverðu árinu milli allra stjórnmálaflokka geri ég ráð fyrir því að fyrsta skrefið yrði að kynna það á þeim sama vettvangi, kynna það formönnum allra stjórnmálaflokka, í framhaldinu væntanlega þingflokkum og þingnefndum eftir því sem því miðaði fram.

Að sjálfsögðu get ég ekki talað hér um ávinning af einhverju sem ekki er orðið. Við höfum í þágu málsins forðast að birta tölulegar upplýsingar. Á meðan niðurstaða liggur ekki fyrir mundi það ekki hjálpa til þannig að hin mögulega niðurstaða sem slík eða samanburður hennar við aðra hluti er ekki tímabær á þessu stigi.

Hefur áhættan verið metin af því að málið kynni að lenda fyrir dómstólum? Já, að sjálfsögðu. Það hefur tengst lagalegum undirbúningi að því að svara Eftirlitsstofnun EFTA. Öll lagarök og öll lagaleg áhætta hefur verið greind í því ferli og sá undirbúningur liggur til.

Varðandi gengisáhættuna er hún að vísu til staðar en það eru líka gengisvarnir á móti (Forseti hringir.) sem eru innbyggðar í gegnum það að búið á umtalsverðar eignir og fær tekjur í erlendri mynt.