144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[21:11]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Til að halda aðeins áfram með Ríkisútvarpið þar sem frá var horfið er ég sammála hv. þingmanni að það er mjög skrýtið að skilyrða fjárveitinguna sem á að fara til Ríkisútvarpsins á þann hátt sem raun ber vitni. Svo er það náttúrlega hitt sem hv. þingmaður kom inn á líka, að fjárlaganefnd ákveði að Isavia greiði arð. Fjárlaganefnd á ekkert með það.

Þetta er af sama meiði og ég var að tala um áðan, að stjórnvöld núna virða ekki leikreglurnar. Þau ákveða bara og telja sig geta ákveðið þetta og að gera hitt svona. Það er mjög slæmt. Það er hættulegt ef við veitum ekki mótspyrnu.

Hvað varðar Ríkisútvarpið verður haldinn mótmælafundur, skilst mér, á Austurvelli á morgun og það er rétt að hvetja fólk til að mæta og sýna hug sinn í verki og álit sitt á þessum atriðum. Ég ætla að fá að koma aðeins inn á menntamálin í seinna andsvari.