145. löggjafarþing — 44. fundur,  30. nóv. 2015.

peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

139. mál
[17:21]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Það mál sem hér er til umræðu er nú tiltölulega einfalt og sakleysislegt; innleiðing á breytingum vegna athugasemda sem hafa borist vegna laga um peningaþvætti. Þetta mál, eins og hv. framsögumaður hefur sagt frá, kom fyrir efnahags- og viðskiptanefnd en hér dúkkar allt í einu upp breyting. Ég hef setið alla fundi efnahags- og viðskiptanefndar frá því á haustdögum, utan einnar viku hvar ég var fjarverandi, og það var sú vika sem um er að ræða, 18. nóvember, og þar kom aldrei til umræðu að breyta fjárhæðarmörkum eins og lagt er til í 2. tölulið breytinganna, þ.e. í a-lið 3. gr., að breyta þessum 1.000 evrum í 150 þús. kr.

Ég spyr nú hér í þessum sal — að vísu er allt of fámennt til að spyrja svona stórrar spurningar: Hér er verið að fjalla um sameiginlegan innri markað og ég tel að hinn sameiginlegi innri markaður sé sennilega með eitt prómill í krónum. Ef menn ætla sér að taka þessar tölur, sem eru með fjárhæðarmörkum og eru yfirleitt tilgreindar í evrum, skulu menn fara í alla löggjöf. Einhvers staðar sá ég að það væri vegna þess að krónan væri lögeyrir á Íslandi. Það bara kemur málinu nákvæmlega ekkert við. Lögeyrir er sá gjaldmiðill sem er skylt að taka við til lúkningar skulda. En við erum hér að tala um fjárhæðarmörk og getum notað hvaða mynt sem er. Ég ætla bara að minna þingheim á að lengi vel voru sektir í landhelgismálum ákvarðaðar í gullkrónum án þess að þær væru brúkaðar, að því er ég tel, eftir 1918 hér á landi.

Ég bið þingheim því að gæta varúðar þegar kemur að því að fallast á breytingu samkvæmt 2. tölulið í breytingartillögunum. Það að þessi breyting skuli dúkka upp — ég sá hana fyrst í uppkasti að nefndaráliti í þessari viku og ég tel að við séum hér komnir út á býsna hála braut, menn skulu þá taka fjárhæðarmörk í þessum innleiðingarmálum, þar sem við erum með þennan sameiginlega innri markað, til rækilegrar skoðunar í heilu lagi en ekki láta duttlunga ráða eins og hér er gert. Að því mæltu stoppa ég hér en mér sýnist að hv. framsögumaður Brynjar Níelsson ætli að svara mér og ég tek þá til máls öðru sinni ef hann kemur hér upp.