150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[13:23]
Horfa

Þorgrímur Sigmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Smára McCarthy fyrir hlý orð í minn garð í upphafi andsvarsins. Já, ég lýsti yfir skoðun minni á málinu með tiltölulega afdráttarlausum hætti. Ég tel að ég hafi reyndar, þótt hann hafi ekki beinlínis verið að spyrja um það, gert það í flest þau skipti sem ég hef staðið í þessari pontu og farið í ákaflega litla leiki þegar ég hef komið hingað upp.

Varðandi spurninguna um eignaupptöku í tengslum við siðaskiptin og svo þann flutning þegar við færðum okkur úr þessari kaþólsku kirkju yfir í hina evangelísku lútersku kirkju, hvort þar hafi verið eignaupptaka, þá lít ég frekar á það eins og siðaskiptin, að þetta hafi meira verið svona þjóðfélagsbreyting. Við vorum ekki að færa eignir, við vorum kannski meira að skíra þær upp á nýtt, held ég frekar. En frumlegastur þótti mér hv. þingmaður samt þegar hann spurði mig hvort ég hafi kynnt mér nýlega fallinn dóm á Indlandi. Ekki ætla ég að fara í frekari leiki í þessu svari frekar en í hinu og svara þingmanninum bara hreinskilnislega: Nei, hv. þm. Smári McCarthy, ég þekki þetta mál ekki og hef aldrei heyrt á það minnst.