150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[16:27]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að mæta í andsvarið, honum er alveg fyrirgefið að hafa brugðið sér frá. Ég ætla að segja í fyrsta lagi að ég held að það sé ekki óvænt og ekki ástæðulaust að umfang tilefna til fjárauka í þessu frumvarpi núna er miklu minna en nokkurn tímann áður. Það er einfaldlega vegna þess að beitt hefur verið meiri aga og fleiri úrræðum hefur líka verið úr að spila en áður, eins og notkun varasjóða og tilfærslum. Við höfum náð betur utan um það.

Ég ætla heldur ekki að reyna á nokkurn hátt að halda því fram að útgjöld vegna samkomulags við kirkjuna séu óvænt og ófyrirséð í fjáraukalagafrumvarpinu. Það eru atriði sem eru bara pólitísk ákvörðun um að fleyta fram í þessu fjáraukalagafrumvarpi af því að við höfum ekki það form að breyta gildandi fjárlögum með sérstöku frumvarpi, eins og ég t.d. vildi gera á þeim tíma þegar ríkisstjórn tók við eftir áramót, eftir að fjárlög höfðu verið samþykkt, og gat þar af leiðandi lítil áhrif haft á stjórn ríkisfjármálanna. Það hefði að mínu viti verið fullt tilefni til þess, í staðinn fyrir að fara inn í varasjóði eins og var gert með tilteknar ráðstafanir sem illa var hægt að rökstyðja sem óvænt og ófyrirséð útgjöld. Við hv. þingmaður studdum báðir þá ríkisstjórn og hefðum þurft að tala fyrir því, hefði hún komist alla leið á enda við að flytja fjáraukalagafrumvarp, að það væri fullt tilefni til að flytja sérstakt frumvarp til breytingar á fjárlögum til að fullnusta það.

Varðandi spurningu hv. þingmanns um hvort ekki hafi verið ástæða til að hafa fjárlög ársins með öðrum hætti er því til að svara að við höfum ákveðnar fastar stærðir sem við miðum okkar áætlanagerð og forsendur fjárlaga við. Það er síðan mjög þunnur ís eða hættuleg braut eða hvernig sem við orðum það, hv. þingmaður, hvað við getum leyft okkur að feta mikið út frá henni og fara í einhverjar (Forseti hringir.) gildishlaðnar væntingar um hvernig þetta muni nú ekki ganga eftir þeim „parametrum“ sem við notum til setningar fjárlaga hverju sinni.