144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[19:56]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Nú greiðum við atkvæði um tillögu minni hlutans um að auka framlög til Landspítalans miðað við það sem spítalinn sjálfur hefur sagst þurfa í sinn rekstur og, eins og kom fram hjá hv. þingmanni sem talaði hér á undan, líka til þess að styrkja sérstaklega barna- og unglingageðdeild Landspítalans því að við höfum verulegar áhyggjur af stöðunni þar. Það á ekki einungis við um barna- og unglingageðdeildina heldur aðrar deildir og stofnanir sem fást við geðheilbrigðismál barna og ungmenna.

Þó að meiri hlutinn komi með tillögu á eftir um að bæta við í rekstur Landspítalans teljum við ekki nógu langt gengið, ekki miðað við þá erfiðu stöðu sem er uppi á spítalanum, ekki miðað við læknaverkfallið sem enn stendur yfir og hleður upp kostnaði fram í tímann, ekki miðað við þann mikla vilja sem við finnum hjá öllum almenningi í landinu til að standa betur með spítalanum okkar. Ég segi því já við þessu.