150. löggjafarþing — 45. fundur,  13. des. 2019.

áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa.

316. mál
[17:11]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni fyrir að mæla fyrir þessu. Ég er á því að þetta sé fagnaðarefni. Þetta frumvarp og nefndarálit er bara ágætt og er ég alveg sammála því. Það er nokkuð langt um liðið frá því að sú breyting var gerð á hinu svokallaða smábátakerfi að bátar voru leyfðir stærri. Eru þessir bátar orðnir það öflugir að þeir fiska orðið yfir 1.000 tonn, margir hverjir, á ári og eru gerðir út mjög stíft. Mönnunarmálin á þessum skipum sem verið er að taka á þarna, milli 12 og 15 metra, hafa verið erfið í sambandi við réttindi og annað slíkt. Mig langar að spyrja þingmanninn að því hvort sú staðreynd að of mikið hefur verið af því að bátar í þessum flokki hafi verið að stranda hafi ekki komið til tals í vinnu við frumvarpið. Hef ég þá skoðun að það sé oft og tíðum út af því að menn eru of þreyttir. Hvort það hafi verið talað um hvernig væri hægt að mæta því vandamáli. Að lágmarki sé einn maður nægilega úthvíldur til að aka eitt landstím eða eitthvað slíkt. Þarna er tekið fram að það sé miðað við 24 klukkustunda úthald og leikur mér forvitni á að vita og spyr því þingmanninn út í þetta.