144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:51]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Stjórn Ríkisútvarpsins óskaði eftir tiltekinni útfærslu á fjármögnun, að útvarpsgjaldið yrði óbreytt og rynni óskert til Ríkisútvarpsins. Því hefur nú verið hafnað. (VigH: Þetta er rangt.) Það sem hér er að koma í staðinn eru handjárnin, skilyrðin sem verið er að setja stofnuninni. Nú eru skilaboðin frá ríkisstjórnarmeirihlutanum skýr: Þið skuluð gjöra svo vel að dansa með, annars er ekki neitt að fá frá okkur.

Með þessari tillögu ríkisstjórnarmeirihlutans er kippt úr sambandi hugmyndinni um (Gripið fram í.) sjálfstæði Ríkisútvarpsins og (VigH: Þetta er rangt.) stjórn Ríkisútvarpsins sett í þá ómögulegu stöðu að þurfa að reyna að rúma almannaþjónustuskyldur sem aldrei geta rúmast innan þessara fjárveitinga og þurfa að sæta skilmálum valdsins sem stofnunin á samkvæmt lögum að vera laus undan. (Forseti hringir.) Handjárnin eru komin á RÚV.