144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[19:49]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Við leggjum hérna til 100 millj. kr. framlag til Sjúkrahússins á Akureyri. Eins og komið hefur fram skortir fé þar eins og svo víða annars staðar. Það eru vandræði með lyfjabúrið, það þarf að bæta öryggisvörslu og við höfum rætt um það áður í þessum sal að aðstæður á geðdeildinni eru óásættanlegar, þá á ég við húsnæðið. Ég geri mér grein fyrir því að það vantar víða fjármagn og ekkert óeðlilegt að ríkisstjórnin vilji halda að sér höndum en ég minni á að í kvöld verðum við búin að samþykkja tæpa 55 milljarða í skuldaniðurfellingu. Ég vil að við höfum í huga að þetta er forgangsröðin. Við ætlum að dreifa fé til heimila, við vitum ekkert hvernig það lendir, hvort það bjargi einhverjum heimilum eða hvað. Á sama tíma neyðumst við til að halda heilbrigðiskerfinu niðri. Við getum ekki bætt í þar. Og einhverjir þingmenn brosa hér. Mér finnst þetta mjög alvarlegt mál, mér finnst þessi skuldaniðurfelling svo arfavitlaus framkvæmd að ég á örugglega eftir að röfla um það alveg út allt þetta kjörtímabil.