144. löggjafarþing — 45. fundur,  10. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[20:56]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að það tók mann svolítinn tíma að uppgötva hvað áform ríkisstjórnarinnar um að hætta að jafna örorkubyrði almennra lífeyrissjóða eru ótrúleg. Það er kannski vegna þess að fjárlagaliðurinn heitir mjög flóknu og tæknilegu nafni. Það er kannski ekki á allra vitorði um hvað þetta snýst, en þetta snýst einfaldlega um það að sumir lífeyrissjóðir eru með marga félagsmenn sem vinna erfiðisvinnu og eru líklegri til að lenda á örorkubótum og verða öryrkjar. Þessir lífeyrissjóðir þurfa að bera örorkubyrði út af því. Það er ævintýralegur munur á lífeyrissjóðum hvað þetta varðar. Ef ríkissjóður hættir að jafna þessa örorkubyrði almennra lífeyrissjóða verður niðurstaðan sú að þeir sem vinna erfiðisvinnu í landinu, sjómenn og bændur, þurfa að borga (Forseti hringir.) hærri iðgjöld í lífeyrissjóði og/eða fá minni lífeyri en aðrir. Það er óásættanlegt.