140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrr. forsætisráðherra.

403. mál
[12:14]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef áður reynt að ræða við hv. þm. Einar Kristin Guðfinnsson um ýmis mál og hann virðist oft heyra annað en það sem sagt er, en hvað um það. Ég fjallaði í ræðu minni um aðdraganda málsins sem við fjöllum hér um, ég fjallaði eingöngu um það mál og tók afstöðu til þess einvörðungu. Með tilvísun í mína ágætu bloggsíðu, og aftur bestu þakkir fyrir að vekja athygli á henni, (Gripið fram í.) ég veit að lesturinn eykst verulega við þetta inngrip hv. þingmanns.

Auðvitað hefur það afleiðingar inn í framtíðina ef stjórnmálamenn hafa áhrif á dómskerfið með þeim hætti sem hér er lagt til, það blasir algjörlega við. Það hefur að sjálfsögðu pólitísk áhrif inn í framtíðina, þannig mun það alltaf vera, það vita menn. Það er ekkert langt síðan fyrrverandi ráðherrar Sjálfstæðisflokksins máttu þola dóm (Forseti hringir.) fyrir að grípa inn í dómskerfið með því að skipa dómara sem þóttu ekki hæfir til starfa, hægri vinstri. (Forseti hringir.) Þeir hafa gert þetta alla tíð. Hefur það ekki haft áhrif?

(Forseti (SIJ): Forseti vill minna á að ræðutími er aðeins ein mínúta í hvort sinn.)