141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[21:55]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég ætla að gera athugasemdir við 3. lið á dagskrá fundarins í dag. Þar stendur: Ráðstafanir í ríkisfjármálum, 468. mál, og þar á að fjalla um tekjuhluta þeirra fjárlaga sem við erum að ræða hér.

Nú vill svo til að eftir rétt rúmlega 11 tíma á að hefjast fundur í hv. efnahags- og viðskiptanefnd þar sem einmitt eina málið á dagskrá er þessi liður, ráðstafanir í ríkisfjármálum, 468. mál. Ég veit ekki hvernig nefndin getur fjallað um þetta eina mál á dagskrá þegar við erum ekki búin að ræða það hér. Við erum sem sagt ekki búin að ræða það, en ræðum samt um fjárlög 2013 í 2. umr. án þess að vita hvaða tekjur eiga að standa undir gjöldunum.

Í frumvarpinu um tekjuöflun finnst mér alveg nauðsynlegt að fara í gegnum stærstu liðina. Gert er ráð fyrir nýjum virðisaukaskatti á gistiþjónustu, þ.e. hækkun úr 7% virðisaukaskatti í 14%. Þetta er ekki bara ein lítil og nett hækkun heldur er verið að búa til algerlega nýtt skattþrep í virðisaukaskattinum. Við erum með 25,5% þrep, við erum með 14% þrep samkvæmt þessu, við erum með 7%, við erum með 0% í vissri þjónustu og ákveðnum vörum, og svo erum við með stóran hluta efnahagslífsins, alla heilbrigðisþjónustu og allt menntakerfið, undanþeginn virðisaukaskatti. Þetta er ansi skrautleg flóra sem gefur náttúrlega heilmikla möguleika fyrir þá sem ekki nenna að borga skatta. Það eru alltaf til einhverjir slíkir.

Síðan er almennt tryggingagjald hækkað um 0,3 prósentustig. Það held ég að veki ekki mikla lukku hjá atvinnulífinu. Svo er verið að hækka tóbaksgjaldið þrátt fyrir að bent hafi verið á að tekjurnar séu að minnka. Fjársýsluskattur á bankana er hækkaður og bílaleigubílar eru færðir nær vörugjaldi. Þetta er hin atlagan að ferðaþjónustunni sem menn hafa verið að tala um. Það er eins og ríkisstjórnin geti ekki séð neina atvinnugrein ganga þokkalega, ekki sjávarútveginn, ekki áliðnaðinn og ekki ferðaþjónustuna.

Gert er ráð fyrir áframhaldandi úttekt séreignarsparnaðar, það er svo sem allt í lagi. Síðan eru það bætt skattskil, 0,6 milljarðar. Það verður gaman að sjá framkvæmdina á því, en það má vel vera að það sé nauðsynlegt.

Hingað til í þessari umræðu, sem mér finnst nokkuð gagnleg, um áhættu ríkisins af stórum rekstri, þ.e. Landsbankanum, Íbúðalánasjóði o.s.frv. Áhættan er komin fram hjá Íbúðalánasjóði, ekki hjá hinum tveimur sem betur fer, en áhættan er samt sem áður til staðar vegna rekstrarformsins. Þetta er á ábyrgð ríkisins. Svo erum við með skuldbindingar hjá LSR, ég ætla ekki að fara nánar út í það.

En nú ætla ég að ræða um tillögur meiri hluta hv. fjárlaganefndar sem koma fram í nefndaráliti hennar. Þar eru margir liðir. En það sem kannski er athyglisverðast er það sem vantar inn í tillögurnar. Ég ætla að byrja á því að koma hér með tvær fréttir. Í fyrsta lagi er það frétt frá 14. september. Ég hafði spurt hæstv. velferðarráðherra Guðbjart Hannesson hvaða upphæðum væri búið að verja í hönnun á nýjum spítala. Samkvæmt 6. gr. fjárlagafrumvarpsins er gert ráð fyrir því að heimilt sé að taka lán til þess arna, en engin upphæð tilgreind. Það er heimilt að taka lán, þess vegna upp á 1 þús. milljarða eða ég veit ekki hvað. Galopin heimild. Ég held að svona heimildir séu ekki í samræmi við stjórnarskrá. Ég held það ekki, ég er sannfærður um að svo er ekki. Ég spurði: Um hvaða upphæð er að ræða? Þá svarar hæstv. velferðarráðherra: Við erum að tala um 100 milljónir og eitthvað yfir milljarð. Þá vitum við það. 100 milljónir og eitthvað yfir milljarð í rekstri í kringum þetta, fullt af fólki sem kemur að þessu, verið að hanna nýjan spítala og þetta er hvorki á fjárlögum né fjáraukalögum. Það kemur bara fram í lítilli grein að heimilt sé að taka lán til að standa undir þessu. Þetta finnst mér ekki gott, þetta sýnir að fjárlagafrumvarpið er ekki skothelt. Í því eru fullt af götum.

Síðan kom frétt 30. nóvember á mbl.is um að 8,7 milljarðar væru tryggðir í Vaðlaheiðargöng. Þar segir: Katrín Júlíusdóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, undirritaði í dag fyrir hönd ríkisins lánasamning við Vaðlaheiðargöng hf., upphæð lánsins er 8,7 milljarðar. Þarna eiga menn peninga til. Þetta er brýnt, á sama tíma og fólk veit ekki einu sinni hvort hjúkrunarfræðingar mæta til vinnu í næsta mánuði, hvort þeir verði ekki farnir til Noregs. Ég hef varann á gagnvart svona áherslum.

Ég ætlaði að ræða nefndarálitið og byrja á því að vitna í eitt lítið atriði á bls. 3, með leyfi herra forseta. Það er verið að tala um embætti forseta Íslands. Þar stendur:

„Gerð er tillaga um 16 millj. kr. tímabundið framlag í eitt ár. Útgjöld forsetaembættisins voru skorin mjög niður eftir fall fjármálakerfisins og opinberum heimsóknum m.a. frestað. Gert er ráð fyrir að þráður opinberra heimsókna verði nú tekinn upp að nýju.“

Nú á að taka upp opinberar heimsóknir að nýju, ekkert mál lengur. 16 milljónir í þetta á sama tíma og við fáum þessar fréttir af hjúkrunarfræðingum og frá mörgum öðrum stöðum.

Svo er hér tillaga meiri hluta fjárlaganefndar um græna hagkerfið. Þetta er tillaga sem kemur inn eftir að frumvarp til fjárlaga hefur verið lagt fram. Þetta er tillaga hv. þingmanna meiri hlutans. Með leyfi herra forseta:

„Gerð er tillaga um 280 millj. kr. framlag til að standa undir ýmsum verkefnum sem ráðgerð eru samkvæmt þingsályktun um græna hagkerfið. Ríkisstjórnin samþykkti í fjárfestingaráætlun sinni í maí sl., með fyrirvara um samþykkt Alþingis, að 3.850 millj. kr. yrði varið til græna hagkerfisins á árunum 2013–2015 …“

Herra forseti. Er þetta virkilega brýnast? Er þetta brýnast þegar fólk á í vandræðum með að ná endum saman heima hjá sér til að borga af verðtryggðum lánum og standa undir sívaxandi framfærslubyrði heimilisins? Er þetta það brýnasta? 3.850 milljónum á að verja á árunum 2013, 2014 og 2015, á þremur árum. Það eru 1 þús. millj. kr. á hverju ári í græna hagkerfið. Skyldi þetta ekki mega bíða þangað til Íslendingar eru komnir dálítið út úr kreppunni?

Svo fær Háskóli Íslands 800 millj. kr. Ég bendi á að við rekum víst sjö háskóla í þessu litla landi. Mín vegna mættu þeir vera tveir. Ég held að við ættum að stefna að því að hafa þá tvo eða í hæsta lagi þrjá. Það er allt of dýrt að hafa svona marga litla háskóla sem eru hver með sína yfirstjórn og hver með sín sérsvið. Þetta er óskaplega dýrt. Hér er lagðar til 800 millj. kr. til að hefja framkvæmdir við byggingu húss íslenskra fræða. Áætlaður framkvæmdakostnaður nemur 3,4 milljörðum kr. Þetta höfum við nefnt fyrr í umræðunni þannig að ég ætla ekki að vera að tönnlast mikið á þessu, en þetta eru tillögur hv. meiri hluta.

Ég kemst ekki yfir meira, herra forseti, en ætla að nefna það sem stendur á bls. 7. Þar segir um Rannsóknamiðstöð Íslands:

„Lagt er til að rekstrargjöld hækki um 136 millj. kr. og sértekjur um sömu fjárhæð en þær koma allar frá útlöndum. Um er að ræða ný verkefni sem ekki hafa verið í fjárlögum, m.a. tekjur vegna rekstrarstyrks frá Evrópusambandinu 78,3 millj. kr., Nordplus 16 millj. kr. og LME-eTwinning 13,8 millj. kr.“

Þetta heyrir undir menntamálaráðuneytið og þar situr hæstv. ráðherra Katrín Jakobsdóttir, Vinstri grænum, og er sem sagt að deila út peningum frá Evrópusambandinu. Verði henni að góðu.