150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

129. mál
[16:42]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Framlagt mál á þskj. 129 hefur komið fram á Alþingi þrisvar sinnum ef ég man rétt. Sá sem hér stendur hefur mælt fyrir þessu máli þrisvar sinnum og við þau tíðindi sem nefndarálitið færir okkur togast á tvær tilfinningar, annars vegar óþolinmæðin yfir því að geta ekki gert þetta frumvarp óbreytt að lögum nú þegar fyrir áramót. Það er ekki bara sá sem hér stendur sem er óþolinmóður um lok þessa máls heldur líka sá stóri hópur sem málið varðar. Hinum megin á vogarstönginni er aftur á móti sú rödd sem segir að vanda þurfi lagasetningu, það þurfi að fara vel yfir hvert mál, gaumgæfa það og hafa samráð við þá sem málið tekur til. Að þessu virtu er ég í sjálfu sér fullkomlega sáttur við að þessu frumvarpi sé, eins og þar stendur, vísað til ríkisstjórnarinnar vegna þess sem kemur fram í lok nefndarálitsins, með leyfi forseta, „að samráð og önnur vinna við endurskoðun á framangreindum forsendum hefjist þegar í byrjun ársins 2020 og að ráðherra leggi fram lagafrumvarp með tillögum að breytingum á haustþingi“.

Sá sem hér stendur treystir hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra mjög vel til að vinna þetta mál á þessum forsendum. Satt að segja reikna ég með því, treysti því og trúi að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra muni þegar í byrjun næsta árs byrja þetta samráð þannig að hægt sé að nota sumarið til að semja lagafrumvarp, leggja það fram í byrjun haustþings og afgreiða það sem lög frá Alþingi fyrir árslok 2020. Það held ég að skipti verulegu máli, herra forseti, vegna þess að þetta varðar töluverðan hóp ríkisstarfsmanna sem hafa verið undir það seldir til þessa að þurfa að hætta störfum í mánuðinum eftir að þeir verða sjötugir, alveg sama hvernig þeirra líkamlega ástand er og hvort hugur þeirra stendur til þess að vinna áfram. Þeir hafa verið neyddir til þess samkvæmt lögum að láta af störfum eftir þennan tíma.

Margoft hefur komið fram í bæði máli þess sem hér stendur og annarra að þetta er sóun á hæfileikum, þekkingu og verðmætum. Formaður Landssambands eldri borgara hefur orðað þetta þannig mjög vel að menn fari ekki fram yfir síðasta söludag þó að þeir bæti einu ári við ævina. Það er einmitt það sem þetta mál snýst um, að leiðrétta það ranglæti sem felst í því að einn hópur starfsmanna á vinnumarkaði skuli undir það seldur að hætta við sjötugt og í öðru lagi að við höfum ekki efni á að sóa hæfileikum þeirra og verðleikum. Vegna þess að það er búið að vera kappsmál Miðflokksfólksins mjög lengi vænti ég þess að við munum sækja það mjög fast að ráðherra komi fram með frumvarp mjög snemma á haustþingi. Við munum fylgjast gaumgæfilega með því og við munum að sjálfsögðu í millitíðinni leggja fram fleiri mál sem varða aldraða, hvað varðar vinnuframlag þeirra, hvernig þeir greiða skatt af sínum launum og að þeir skuli eins og nú er þurfa að sæta 100.000 kr. frítekjumarki sem er ekki hvetjandi til atvinnuþátttöku. Allt þetta þarf að skoða og Miðflokkurinn mun ekki láta sitt eftir liggja að koma fram með mál sem varða þessi atriði.

Að því sögðu fagna ég því að málið fái nú gaumgæfilega skoðun og vandaða yfirferð, að haft verði samráð við þá sem það varðar og að fram komi nýtt frumvarp í byrjun haustþings þannig að við getum staðið við það sem ég sagði áðan, að samþykkja að eldra fólk í vinnu hjá ríkinu geti unnið lengur hafi það hug, getu og vilja til þess. Það er réttlætismál og þá hættum við líka þeirri sóun sem ég minntist á áðan.