145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[17:00]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú að samgönguhluta spurningar hv. þm. Helga Hjörvars. Þá skal ég segja að ég hef ekki farið nýlega um þessa umræddu vegarkafla eins og hv. þingmaður, þar sem átti að gefa í og klára, þannig að mér er ekki kunnugt um stöðuna hvað það varðar.

En hins vegar vil ég segja það og ítreka sem ég sagði í ræðu minni og er grunnatriði í fjármögnun á samgönguframkvæmdum, að það litla sem verið er að gera í samgöngumálum eru framkvæmdir við verk sem fóru í gang í tíð síðustu ríkisstjórnar eða smærri kaflar sem voru samþykktir þar. Ég tók saman áðan að framkvæmdin við Norðfjarðargöng var boðin út og skrifað undir samning þannig að núverandi ríkisstjórn, þegar hún komst að, gat ekki skorið niður framkvæmdir eins og hún ætlaði sér og kom fram í texta í fjáraukalögum þá, þannig að framkvæmdir fóru í gang. En síðan spila fjárlög ekki saman með samgönguáætlun. Samgönguáætlun er þingsályktun, vilji þingsins um hvernig eigi að gera þetta. Fjárlögin eru til að tryggja framkvæmdina og fjármagnsflæði í það og þar hefur ekki farið saman hljóð og mynd vegna þess að það er allt saman undirfjármagnað. Á miðju sumri í Norðfjarðargöngum var verktakinn eiginlega búinn að fá allt greitt sem hann gat fengið greitt á þessu ári og fór þá að slá af framkvæmdum og hægja á þeim og lána ríkissjóði. Það er nú öll framkvæmdin í samgöngumálum hjá hæstv. ríkisstjórn. Þessi aðferð að hæla sér af ákvörðunum um einhverja smávegarspotta sem verið er að fara fram með og samþykkja og ég tala nú ekki um ef framkvæmdir eru svo ekki hafnar — maður skilur ekki almennilega til hvers þetta er gert. (Forseti hringir.)

En það skal sagt einu sinni enn að í tíð núverandi ríkisstjórnar og stuðningsaðila hennar er verið að stuðla að minnstu samgönguframkvæmdum sem hafa verið síðustu tíu ár.