144. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[13:01]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Atkvæðagreiðslan hér í dag einkennist af glaðhlakkalegum sjálfstæðismönnum og lúpulegum framsóknarmönnum. Það er verið að lækka efra þrep virðisaukaskatts og afnema vörugjöld, en hverjir borga? Fólk borgar fyrir það með matarinnkaupum og svo fundust sérstakir hópar til að taka á sig þessa skattalækkun og fjármagna hana. Þeir sem eiga að fjármagna hana eru þeir sem hafa verið atvinnulausir til langs tíma. Það á að skerða réttindi þeirra til bóta um sex mánuði. Þeir sem eiga líka að taka á sig kostnaðinn af skattalækkunum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks er alvarlega veikt fólk sem á nú að taka þátt í að greiða S-merktu lyfin sín. Ég mun fara nánar yfir það í einstaka atkvæðagreiðslum hér á eftir.

Það sem er líka alvarlegt eru áhrifin á fjárhag sveitarfélaganna. Ég lagði fram fyrirspurn til skriflegs svars til fjármálaráðherra 22. október síðastliðinn um þau áhrif. (Forseti hringir.) Henni hefur ekki enn verið svarað.