150. löggjafarþing — 47. fundur,  17. des. 2019.

staðfesting ríkisreiknings 2018.

431. mál
[10:54]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Við erum sammála um það að frumvarpið á að liggja fyrir miklu fyrr. Eftir því kallar nefndin í nefndaráliti sínu. Það er ástæðulaust að koma með frumvarpið þetta seint inn. Ég ætla ekkert að fara í neinar útskýringar á því af hverju það er, við viljum fá þetta fyrr. Ég sé ekki annað í stöðunni en að þetta eigi að geta legið fyrir samhliða fjárlagafrumvarpinu. Það er auðvitað miklu meiri bragur á því fyrir þingið að taka fyrir ríkisreikning á næstkomandi ári, að 2018 sé samþykkt 2019 o.s.frv.

Ég get einvörðungu ítrekað það að þessi vinna við endurskoðunarskýrsluna er algjörlega óháð ríkisreikningnum sjálfum. Hann tekur engum breytingum þrátt fyrir að fjárlaganefnd fari í einhverja sjálfstæða vinnu á verklagi í ríkisfjármálunum og í reikningsskilum ríkisaðila. Við eigum að gera það og ég tek undir með hv. þingmanni með það. Það breytir þó ekki ríkisreikningnum sjálfum og þegar við samþykktum ríkisreikning 2017 í vor kallaði fjárlaganefnd þess vegna eftir því að frumvarpið yrði einfalt í sinni mynd. En við eigum einmitt að taka endurskoðunarskýrsluna fyrir og fara yfir ábendingar ríkisendurskoðanda þannig að við áttum okkur betur á myndinni, hvað betur megi fara í ríkisfjármálunum, bókhaldi og öllu tengdu Fjársýslu ríkisins. Þá vinnu eigum við að fara í.