Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2022.

hlutafélög o.fl.

227. mál
[23:39]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er mjög áhugaverð spurning sem hv. þm. Gísli Rafn Ólafsson kom með og raunverulega kjarnaatriði í þessu. Af hverju er verið að gera þetta? Jú, ég tel að það gæti verið að hluthafar, litlu hluthafarnir sem eiga bara hlut sem hluta af sparifé sínu og ávaxta sitt sparifé, gætu notað tímann fyrir aðalfund eða hluthafafund, skipulagt sig og gert uppreisn, tekið völdin í sínar hendur. Og hverjum kemur það illa? Jú, stjórn fyrirtækisins og stóru hluthöfunum. Þessu er beint gegn litlu hluthöfunum, þeim sem hafa ekki ítök í fyrirtækjunum og ráða engu. Það er verið að passa sig á þeim og ég get ekki séð annað, eins og kemur fram á bls. 2 í frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Ráðuneytinu hafa borist ábendingar þess efnis að það geti verið vandkvæðum bundið að undirbúa fund og koma upplýsingum á framfæri við hluthafa nægilega tímanlega fyrir hluthafafund þegar fundurinn er haldinn rafrænt …“.

Í fyrsta lagi: Vandkvæðum bundið að undirbúa fund. Jú, ef stjórnin veit ekki hver er að koma á fundinn þá gætu verið einhverjir hluthafar úti sem hún þekkir ekki og veit ekki hvað ætla að gera. Ef þú ætlar að skipuleggja uppreisn þá lætur þú ekki vita af því fyrir fram. Maður segir ekki: Heyrðu, ég ætla að kjósa ykkur alla úr stjórn. Nei, þá veit stjórnin það og getur gert ráðstafanir ef litlu hluthafarnir ætla að koma og jafnvel fá stjórnarmann sem gæti raskað valdajafnvæginu. Það er gott að vita það fyrir fram og geta tekið upp fánann.

Í öðru lagi er ég algjörlega ósammála því að það sé vandkvæðum bundið að koma upplýsingum á framfæri við hluthafa. Það er ekki málið. Ef hluthafi mætir á hluthafafundi þá er það hans mál ef hann hefur ekki upplýsingarnar. Það er ekki skylda þeirra sem skipuleggja fundinn að koma þeim á framfæri. Ef hann kemur á fundinn án þess að afla sér upplýsinga sjálfur þá er það hans vandamál. Ef hann ætlar að fá upplýsingar þá talar hann við stjórnina, en þessu er beint gegn litlu hluthöfunum, gegn Jóni og Gunnu. (Forseti hringir.) Það er mín skoðun og ég hef fært rök fyrir því. Það vantar algerlega rök fyrir því hvers vegna verið er að takmarka og það er mjög áhugaverður punktur. (Forseti hringir.) Af hverju eru ekki færð rök fyrir því að verið sé að skerða réttinn óeðlilega mikið?