144. löggjafarþing — 47. fundur,  12. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[11:52]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við munum hér á eftir greiða atkvæði um stórfelldar skattahækkanir á mat og menningu, skattahækkanir sem munu auka álögur á almenning í landinu, ekki síst tekjulægri heimilin. Matarkarfa hvers einasta manns mun hækka og hver einasti maður mun finna fyrir þessum auknu álögum þrátt fyrir þær mótvægisaðgerðir sem fylgja. Við munum horfa upp á hærra bókaverð og hærra verð á tónlist af hálfu ríkisstjórnar sem talar sérstaklega fyrir áherslu á þjóðmenningu og talar sérstaklega fyrir aukinni áherslu á læsi.

Virðulegi forseti. Þessar tillögur ýta undir það sem hér hefur verið sagt, að ríkisstjórnin sé ekki ríkisstjórn heimilanna í landinu eins og hún hefur gefið sig út fyrir að vera, og hún er svo sannarlega ekki ríkisstjórn þjóðmenningar.