145. löggjafarþing — 47. fundur,  4. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[11:07]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég ætla í upphafi máls míns að leyfa mér að lesa upp úr greinargerð með frumvarpinu, þar sem vitnað er til laga um fjárreiður ríkisins frá árinu 1997. Það eru lög nr. 88 frá 1997.

Í inngangi segir, með leyfi forseta:

„Með setningu laga nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins, og í greinargerð með því frumvarpi, markaði Alþingi skýra stefnu um hlutverk og efni fjáraukalaga. Í því felst að gert er ráð fyrir að allar fyrirsjáanlegar fjárráðstafanir komi fram í fjárlögum en að í fjáraukalögum innan fjárhagsársins verði leitað eftir heimildum fyrir þeim fjárráðstöfunum sem ekki var hægt að sjá fyrir við afgreiðslu fjárlaga.“ — Ég vil endurtaka þetta, virðulegi forseti: sem ekki var hægt að sjá fyrir við afgreiðslu fjárlaga. — „Samkvæmt fjárreiðulögunum er slíkum fjárráðstöfunum í fjáraukalögum fyrst og fremst ætlað að taka til óhjákvæmilegra málefna, einkum til ófyrirséðra atvika, áhrifa nýrra kjarasamninga eða nýrrar löggjafar á árinu, en ekki til áforma um ný verkefni, aukins umfangs starfsemi eða t.d. rekstrarhalla einstakra ríkisstofnana umfram setta útgjaldaramma, enda er mælt fyrir um það í lögunum að vísa beri slíkum tillögum um breytingar á fjárheimildum til umfjöllunar um fjárlög fyrir næsta fjárhagsár.“

Ég tel rétt að fara yfir þetta í upphafi máls míns um fjáraukalög fyrir árið 2015. Mér sýnist samt sem áður þessi fjáraukalög vera að því leytinu til, ef ég má orða það svo, ánægjuleg miðað við það sem stundum kemur fram, að tekjur hafa aukist frá því sem ráð var fyrir gert, enda efnahagsástand í landinu mun betra en búist var við og því hækka tekjur ríkissjóðs. Auðvitað er það ánægjulegt. Einnig hefði verið ánægjulegt ef hægt hefði verið að skila þessum tekjum og borga niður skuldir. Það verður einhver meiri afgangur en ráð var fyrir gert í upphafi, en gjöld aukast samt sem áður meira en ráð var fyrir gert í fjárlagafrumvarpinu. Mun ég fara yfir það á eftir.

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að nefna að það er líka nauðsynlegt með tekjur alveg eins og gjöld að reyna að áætla þar eftir bestu vitund. Þegar efnahagsástandið er betra koma inn hærri skattar og þar fram eftir götunum, en mér sýnist að illa hafi verið áætlað fyrir arðgreiðslum og þar koma til dæmis inn í frumvarpið 15 milljarðar, hvorki meira né minna, í viðbótararðgreiðslur frá fjármálastofnunum og hafa ræðumenn á undan mér vakið athygli á því að hér virðist einfaldlega um vanáætlun að ræða. Þegar vanáætlað er á þennan hátt, menn geta kannski séð fyrir að þetta komi í fjáraukalögum, gefur það þeim sem fara með völdin hugsanlega tækifæri til að bæta við gjöldum sem ekki fá þá umræðu í þingsal sem gerist þegar fjárlögin eru afgreidd fyrir hvert ár. Þess vegna skiptir máli í þessu tilfelli að áætla rétt fyrir þeim arðgreiðslum.

Eftir því sem mér virðist mun það vera svo að fólk sem þekkir betur til en ég álíti að þetta sé aftur að gerast núna við setningu fjárlaganna fyrir árið 2016, að þar sé ekki að fullu áætlað fyrir arðgreiðslum sem við gætum átt von á á því ári. Mér finnst þetta alvarlegt og vil vekja athygli á að í þessu þarf að passa sig.

Það vakti líka athygli mína þegar ég fór yfir plaggið sem við erum með, að gert er ráð fyrir að tekjur af virðisaukaskatti verði lægri en ráð var fyrir gert í fjárlagafrumvarpinu og verði á rekstrargrunni um 2,4 milljarðar en á greiðslugrunni um 1,9 milljarðar. Þetta eru ekki neinir smápeningar sem virðisaukaskatturinn er áætlaður nú lægri en gert var ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu.

Ég fór að leita eftir í skýringum við þessu hvernig gæti staðið á því vegna þess að allt annað er á uppleið, tekjuskattur er á uppleið, meira að segja tryggingagjaldið er töluvert hærra, ég held að það muni hundruðum milljóna sem tryggingagjaldið er hærra en áætlað hafði verið, en allt í einu eru það 2 milljarðar sem virðisaukaskatturinn er lægri. Á bls. 52 í frumvarpinu fyrir fjáraukalögum stendur hvað þennan lið varðar:

„Skýringar á þessu eru m.a. taldar vera þær að virðisaukaskatti sé síður skilað til ríkissjóðs þegar fyrirtæki eiga í rekstrarvanda í kjölfar efnahagssamdráttar og að slíkar breytingar á hegðun séu tregbreytilegri til baka en veltan og skattstofninn.“

Mér finnst þetta svolítið alvarlegt. Eru menn að segja að virðisaukaskattsskilin séu svona léleg, sem munar 2 milljörðum? Virðisaukaskattur er ekki skattur sem er lagður á fyrirtækin eins og tryggingagjaldið til dæmis sem skilar sér að fullu, heldur er þetta skattur sem fyrirtækin innheimta frá neytendum. Ég held að til sé eitthvert hugtak sem heitir vörsluskattur. Þetta er þá þannig að fyrirtækin sitja þarna inni með skatt sem þau eru búin að innheimta af öðru fólki, sem við erum búin að borga, og það skilar sér ekki inn í ríkissjóð. Gefið er í skyn að þegar illa hafi gengið séu skil á virðisaukaskatti ekki mjög góð og svo þegar fer að ganga betur þá tekur það lengri tíma að fara aftur á hina réttu braut en gildir um önnur gjöld. Þetta finnst mér mjög alvarlegt. Við erum að tala um 2 milljarða. Þetta eru engir smápeningar.

Fyrr í vikunni gaf Samkeppniseftirlitið út skýrslu um eldsneytismarkaðinn hér á landi, frumathugun að vísu og á eftir að skoða það allt saman nánar. Þar kemur fram að við erum kannski að borga 4 milljörðum of mikið fyrir þá vöru vegna skorts á samkeppni. Það er mjög alvarlegt vegna þess að fyrirtækin í landinu eru undirstaða þess að við eigum hér gott líf og að atvinnuvegirnir blómstri og öll viljum við það. En það verður líka að gera þá kröfu til þeirra sem reka fyrirtækin að þeir standi í skilum með virðisaukaskatt.

Stundum hefur verið gert grín að því að menn segi þegar lagður er til einhver tekjuauki til dæmis í fjárlagatillögum: Ja, við skulum ná einhverjum milljónum, jafnvel milljörðum, hefur verið talað um, með því að auka skatteftirlit. Þá hlæja menn. En hér kemur þetta í ljós í fjáraukalögum fyrir eitt ár, menn eru beinlínis að segja það, skilst mér, í skýringum með frumvarpinu að menn skili svo illa og þá um leið að eftirlitið sé ekki nóg eða meira eftirlit þurfi til að ná inn 2 milljörðum. Það er ekkert smávegis. Þetta stakk í augun og þess vegna vil ég vekja athygli á þessu í yfirferð minni um fjáraukalögin.

Eins og ég sagði áðan er ánægjulegt að tekjurnar hækka meira en átti að vera, en gjöldin hækka líka og svo ég vísi til þess sem ég fór yfir í upphafi veldur það því að þegar gjöld eru ákveðin í fjáraukalögum en ekki í fjárlögum — eins og til dæmis kemur fram um framkvæmdir á ferðamannastöðum, þetta er held ég annað eða þriðja árið í röð þar sem fjárframlög til þess mikla málaflokks, sem við vitum öll að þarfnast mikilla peninga, eru ákveðin í fjáraukalögum en ekki í fjárlögum.

Við kunnum svo sem söguna um það og kannski óþarfi og ekki fallegt að vera alltaf að velta hæstv. atvinnu- og ferðamálaráðherra, Ragnheiði Elínu Árnadóttur, upp úr hinu misheppnaða frumvarpi um náttúrupassann. En engu að síður er ekki hægt annað en að minnast á það, sérstaklega í ljósi þeirra 850 milljóna sem nú á að setja í þann málaflokk. Ég efast ekki um að þörf er á því. En á þetta benti minni hluti fjárlaganefndar þegar fjárlögin voru rædd í fyrra og þá horfðu menn bara út í loftið eða ég veit ekki hvað þeir gerðu. Þeir vildu alla vega ekki hlusta á það, heldur taka síðan þessa geðþóttaákvörðun. Kannski hefur það verið út af því að menn vildu þá ekki ræða um frumvarpið margfræga um hvernig við eigum að fjármagna nauðsynlega uppbyggingu á ferðamannastöðum. Ég vil vekja athygli á þessu.

Síðan kemur aftur þessi fjárveiting til Telenor sem er líka svona venjubundinn liður í fjáraukalögum. Allir vita að það þarf að greiða þetta, þetta eru gjöld sem við þurfum að standa undir, en þau eru alltaf sett inn í fjáraukalög. Nú skilst mér samt sem áður að það eigi að laga í framtíðinni og batnandi fólki er best að lifa í þeim efnum eins og öðrum.

Mig langar aðeins að minnast á aukinn málskostnað í opinberum málum. Það kemur út af því að dómstólaráð ákveður verulega hækkun á málsvarnarlaunum og þóknunum verjenda og réttargæslumanna. Þeir gera það eftir að fjárlögin voru samþykkt í fyrra og hefði betur verið gert fyrr, en þarna kemur fyrsta hækkunin. Þetta er hækkað mjög mikið. Síðan hafa orðið miklar hækkanir á launum allra, sem ekki veitir af. Það er mín skoðun, virðulegi forseti, að helsti vandi okkar á Íslandi sé sá hvað laun eru lág og að hækka þurfi launin í landinu. Fyrirtækin í landinu þurfa að taka ábyrgð á því að greiða fólki mannsæmandi laun og þá greiðir fólk hærri skatta og þá verður hér betra að lifa. En þetta var það fyrsta sem hækkaði. Síðan voru læknasamningar og alls konar samningar og allir eiga að hækka í launum á árinu. Það er meira að segja búið að hækka við okkur launin frá 1. mars. Allir nema öryrkjar og eldra fólk, allir aðrir eiga að hækka, mars, maí og verjendurnir um áramótin, allir nema þeir sem lægst hafa launin. Ég ætla að koma að því hér í endann, virðulegi forseti, en tíminn líður svo hratt.

Ég ætla aðeins að minnast á lækniskostnaðinn. 1,8 milljarðar eiga að fara í aukinn lækniskostnað. Þar af er 1,1 milljarður vegna samninga við sérfræðilækna. Þessi samningur við sérfræðilækna er náttúrulega orðinn kapítuli út af fyrir sig og slíka samninga þarf að taka alla upp. Það gengur náttúrulega ekki, eins og mikils metnir menn hafi sagt, að það sé opinn krani. Það er opinn krani til sjálfstætt starfandi lækna í landinu á meðan opinbera heilbrigðiskerfið, sem er undirstaðan í heilbrigðiskerfinu, Landspítalinn og heilsugæslan, fær ónóga fjármuni. Þá er bara opinn krani til sjálfstætt starfandi lækna. Þetta þarf að taka upp. Menn hafa sagt: Já, en fyrrverandi ríkisstjórn samdi ekki við sérfræðilækna og þá þurftum við að semja og þurftum þá að semja svo hátt. Það má vel vera. En af hverju var ekki samið? Það var vegna þess að það tókst ekki. En af hverju ekki? Vegna þess að við þurfum öll að skilja það, ekki bara núverandi meiri hluti, heldur við öll, að þetta kerfi þarf að taka upp. Taka það svona eins og poka, eins og ruslapoka, endurnýtanlegan ruslapoka, þ.e. maður hellir úr honum og fer svo að setja nýtt í hann. Þá á þetta ekki lengur vera ruslapoki. Þetta er mjög alvarlegt mál og þetta þarf að taka fyrir.

Veiðigjaldið lækkar náttúrulega. Það er fastur liður eins og venjulega í öllum tillögum sem ríkisstjórnin kemur með varðandi tekjur ríkisins. Það á að lækka veiðigjöldin, og aldrei hefur útgerðin gengið jafn vel. Menn nýta auðlindina sem þjóðin á og borga ekki fyrir það sem réttlátt væri. Þá koma einhverjir og segja: Menn borga tekjuskatt af þessu. En það er ekki hægt að jafna saman tekjuskatti og veiðigjaldi, virðulegi forseti.

Þessar síðustu mínútur sem ég á eftir ætla ég að koma að kjaramálum eldri borgara og öryrkja. Hér er lögð fram breytingartillaga um að kjörum þeirra hópa í þjóðfélaginu verði breytt frá 1. maí. Það kostar 6 milljarða. Við eigum alveg fyrir því. Það er engin spurning að við eigum fyrir því og þetta á að gera. Við eigum ekki einu sinni að þurfa að hugsa okkur um í tvær mínútur um það. Hvernig í ósköpunum getum við ætlast til þess að allar stéttir í landinu hækki í launum, en ekki þessi hópur? Er sá hópur öfundsverður af sínum kjörum?

Það er svolítið erfitt að reikna þetta út svona að meðaltali, en mér sýnist að við séum kannski að tala um að hækka þetta um 25 þús. kr. á meðalmann í þeim hópi, 25 þús. kr. Við erum að fá hækkun upp á rúmar 60 þús. kr. Í umræðunni um Þróunarsamvinnustofnun og hvað við borgum til þróunarsamvinnu þá sögðu menn oft, af því að þar er verið að lækka prósentuna, hún er minni: Já, en það er krónutalan sem skiptir máli. Prósentan skipti ekki máli, það væri krónutalan sem skipti máli og við værum að borga meira af því að þjóðarframleiðslan hefur aukist og eitthvað svona. En í þessu? Skiptir þá ekki krónutalan máli hérna líka? Skiptir ekki máli að við fáum 60 þús. kr. og umræddur hópur fái 25 þús. kr.? Og við tímum ekki einu sinni að borga það frá 1. maí eins og til annarra í þjóðfélaginu.

Það er okkur til skammar, virðulegi forseti, ef breytingartillaga minni hlutans verður ekki samþykkt. Það er eina orðið sem er hægt að nota um þessa stofnun, að það er okkur til skammar ef við hækkum ekki kjör og bætum ekki kjör þessa fólks frá 1. maí. Það ætla ég að láta vera mín lokaorð.