151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

öflun og dreifing bóluefnis, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[14:44]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Jú, það er nefnilega einmitt þess vegna sem við erum að bólusetja, það er til þess að geta dregið úr sóttvarnaaðgerðum innan lands. Það eru ráðstafanirnar sem hanga algerlega saman, þ.e. annars vegar þær hvernig dregur úr hættunni á faraldrinum innan lands, og hins vegar þegar líkur minnka á því að faraldurinn geri óskunda, bæði með því að valda heilsutjóni og mögulega andlátum. Eftir því sem því vindur fram getum við dregið úr sóttvarnaráðstöfunum innan lands. Ég vona að hv. þingmaður átti sig algjörlega á þessu samhengi því að það hefur legið fyrir um allnokkurt skeið, þetta samhengi hlutanna. En um leið er það auðvitað þannig að þessi kúfur minnkar, eftir því sem sá hópur verður betur varinn sem er í mestri hættu, þeim mun minni líkur eru á því að við lendum í skakkaföllum með heilbrigðiskerfið okkar, sem er annað tveggja meginmarkmiða með sóttvarnaráðstöfunum, þ.e. annars vegar að verja okkar viðkvæmasta fólk og hins vegar að verja heilbrigðiskerfið.