151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

öflun og dreifing bóluefnis, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[15:08]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Virðulegi forseti. Það kann að hafa misskilist það sem ég var að setja fram áðan. Ég var ekki að mælast til þess að takmörkunum á landamærunum yrði aflétt til að opna fyrir einhvers konar rífandi ferðasumar innan lands. Nei, ég var að tala um að ég ætti erfitt með að ímynda mér að kominn væri sá tími að hægt væri að aflétta takmörkunum áður en næsta sumar verður yfirstaðið og hvort ekki væri hægt að skoða það að Íslendingar væru að ferðast af einhverjum krafti hér innan lands í sumar. Landamærin eru ekki skotheld en þau eru þannig að við stöndum vel hvað það varðar að veiran komi ekki hingað bara frjálst inn í samfélagið. Ég var að velta fyrir mér hvort í hlutfalli við bólusetningar, viðkvæmasta hópinn o.s.frv., þá drægi úr lýðheilsuógninni innan lands og þá gæti fólk kannski komið meira saman, við sem hér búum, og það yrði aðeins í ætt við hvernig var síðasta sumar. Það var það sem ég var að tala um.

En ég ætla að fara aðeins út í öflun bóluefna. Um helgina bárust fréttir þess efnis, virðulegi forseti, að Evrópusambandið stæði í deilum við lyfjafyrirtækið AstraZeneca vegna þess að fyrirtækið gæti ekki staðið við gerða samninga um afhendingu bóluefnis. Ljóst er að þetta kemur til með að hafa áhrif á fyrirhuguð plön Íslands hvað varðar bólusetningar og mun Ísland fá mun færri skammta á næstu vikum, geri ég ráð fyrir. Á frumstigum bóluefnisöflunarvinnunnar var tekin ákvörðun um að Ísland skyldi vera í samfloti með Evrópusambandinu og þau rök færð fyrir því að það væri sterk samningsstaða. Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hefur sagt að nauðsynlegt sé að horfa til þess að þegar Ísland var að semja um samflot við ESB í bóluefnakaupum hafi ekkert verið fast í hendi hvað bóluefni varðaði. Það hefði verið, með leyfi forseta, „mjög djörf ákvörðun“ að reyna að feta veginn ein. Í kjölfar áðurnefndra frétta gaf Evrópusambandið það út að verið væri að íhuga að sambandið bannaði sölu á bóluefni til ríkja utan sambandsins.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hver staða Íslands sé hvað þetta varðar. Er tryggt að Ísland fái þó þessa skammta, sem vel að merkja eru langtum færri en vonir stóðu til? Telur ráðherra að einhver aukin hætta eða ógn sé nú komin hvað varðar samstarf Íslands við Evrópusambandið í bóluefnakaupum, er aukin hætta á að Ísland verði úti í kuldanum? Og svo velti ég því fyrir mér, virðulegi forseti, hvort það hefði verið vænlegra fyrir Ísland að skoða strax í upphafi af alvöru þá möguleika að semja um kaup á bóluefni fyrir eigin hönd. En við ferðumst víst ekki aftur í tímann.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort ráðherra finnist ekki liggja beint við að núna gæti Ísland sem fullvalda ríki og í ljósi þeirrar stöðu sem upp er komin keyrt af krafti og dug og kjarki og reynt að verða sér úti um meira bóluefni fram hjá Evrópusambandinu. Er ekki lag að taka djarfa ákvörðun núna og er ekki einboðið að við höfum sjálfstraust og metnað til þess að ganga í málin og taka málin í eigin hendur í staðinn fyrir að vera áfram með öll eggin í Evrópusambandskörfunni?