141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[12:39]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Við stöndum á mjög merkilegum tímamótum í umræðu um fjárlögin. Í fyrsta sinn er komin fram ríkisstjórn í landinu sem sýnir í verki að hún lítur á það sem sérstakt markmið að auka fjölbreytnina í atvinnulífinu og styðja greinar sem hafa mikla möguleika til vaxtar í framtíðinni. (Gripið fram í.)

Undir þessum lið förum við vítt yfir sviðið. Það er búið að leggja fram merka tillögu um stuðning við kvikmyndageirann og hér eru undir tónlistin, bókmenntirnar, hönnunin, myndlistin o.s.frv.

Ég vek sérstaka athygli á því að hér er lagt til að 20 millj. kr. verði varið í útflutningssjóð tónlistarinnar. Þetta er reyndar ekki ný hugmynd, það stóð til á sínum tíma þegar Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur voru í ríkisstjórn en þá, og það er lykilatriði málsins, dó þessi hugmynd drottni sínum í lágkúrulegum pólitískum átökum milli ráðherra í ríkisstjórninni.

Hér er ríkisstjórnin samhent um það að standa við bakið á skapandi greinum og við sjáum þess skýr og góð merki í þessari tillögu.