141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[13:09]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir hvert orð sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson sagði um málið. Ég vil þó bæta því við að meiningin er að færa þá starfsmenn í aðalstöðvarnar sem áætlað er að fjölga um til að sjá um eftirlitið á Fiskistofu.

Ég spurði hæstv. ráðherra í skriflegri fyrirspurn um starfsmenn Hafrannsóknastofnunar og Fiskistofu og hvort til greina kæmi að færa þau verkefni út á land í auknum mæli, og hvort til stæði að færa höfuðstöðvar og annað í þeim dúr. Svörin voru þau að það væru engin áform uppi um slíkt.

Hér sjáum við óhófleg veiðigjöld sem leggjast á fyrirtækin með mjög ósanngjörnum hætti. Þau kosta umtalsverða peninga í stjórnsýslunni. Allar tekjurnar eru teknar af landsbyggðinni þar sem þessi atvinnugrein blómstrar og er undirstaða samfélagsins. Peningarnir eru færðir til Reykjavíkur í alls kyns gæluverkefni, eins og við höfum fjallað um hér, (Forseti hringir.) og líka til að standa undir auknum kostnaði við stjórnsýslu (Forseti hringir.) vegna þessara ólánslaga.