141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[13:25]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Í afgreiðslu varðandi Jöfnunarsjóð sveitarfélaga er tekin ákvörðun um að hverfa frá hinu sérstaka, tímabundna viðbótarframlagi sem veitt var skuldugum sveitarfélögum. Í upphafi var líka framlag sem fór til þeirra sveitarfélaga sem höfðu lágar tekjur. Síðan var reglunum breytt og farið var að beita því þannig að stór hluti af framlaginu fór til sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sem höfðu allt aðrar tekjuforsendur. Illu heilli var tekin ákveðin upphæð af þessu sérstaka viðbótarframlagi og fært einu sveitarfélagi sem skerti þá tekjur þeirra sveitarfélaga sem nutu framlaga af þessu sérstaka viðbótartekjuframlagi.

Nú er sem sagt verið að taka ákvörðun um að hverfa algerlega frá þessari fjárveitingu sem mun þá hafa veruleg áhrif á tekjur skuldugu sveitarfélaganna sem eiga erfitt með að bregðast við. Það er mjög alvarlegur hlutur og ég spái því að málefni ýmissa þessara sveitarfélaga eigi eftir að koma inn á borð (Forseti hringir.) ríkisins fyrr en síðar.