148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[17:08]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Ég ætla nú ekki að taka undir það að skynsamlegt sé að fara aftur í prammana eða hesta þó að það geti verið umhverfislega hagkvæmt, þá held ég að það sé ekki mjög skilvirkt og kannski ekki heldur nægilega öruggt miðað við þær kröfur sem við setjum í dag.

Varðandi þau verkefni sem hv. þingmaður taldi upp er auðvitað annars vegar verið að tala um þau verkefni sem eru í gangi og síðan verkefni sem þarf að fara í á næstu árum. Hér er til að mynda í textanum það sem nefnt var, Seyðisfjarðargöng, sem áætlað er að kosti 24 milljarða, en þau fara auðvitað ekki af stað fyrr en önnur. Ef þau verða áfram í sömu jarðgangaröð í samgönguáætlun og þau hafa verið þá eru þau næstu göng, og fara væntanlega ekki af stað fyrr en 2022–2023, þannig að þau eru auðvitað ekki að fara inn í þessa fimm ára áætlun nema á síðasta ári og kannski í einhvern undirbúning sem þar væri nauðsynlegt að halda áfram með.

Verkefnin eru auðvitað fjölmörg. Þess vegna hef ég sagt að ef við viljum flýta ákveðnum framkvæmdum sem ellegar væru aftar í röðinni í þeirri forgangsröðun sem núgildandi samgönguáætlun er með vegna þess að það væru brýn verkefni, sem þau eru auðvitað allflest, þá gæti verið að við þyrftum að hugsa með einhverjum öðrum hætti fjármögnunina á þeim. Það er það sem við höfum rætt við fjölmarga þingmenn í dag hvaða leiðir væru til þess.

Ég tel að við getum alls ekki útilokað slíka hluti, vegna þess einfaldlega að aukningin í umferð sem er búin að vera núna síðustu ár m.a. vegna mikillar fjölgunar ferðamanna en auðvitað líka vegna hagvaxtar á Íslandi og aukinnar starfsemi, og að ekkert lát sé á þessu, það mun verða aukning á næstu árum, bæði í fjölda ferðamanna og þar af leiðandi umferðaraukningu. Og þess vegna þurfi einfaldlega að fara í meiri framkvæmdir en við ráðum við á sama tíma og við erum að stoppa í götin sem skortur á viðhaldi hefur framkallað.