148. löggjafarþing — 48. fundur,  13. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[01:10]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég verð bara að taka undir með hv. þingmanni þegar kemur að því að undrast hvernig við gátum endað á þessum stað, eftir margra, margra, margra ára bið eftir nýju fangelsi, sem loksins varð að veruleika hér eftir kosningarnar 2013, að það kæmist almennilega á dagskrá að væri klárað. Hvernig gátum við síðan komist á þann stað, eftir að hafa talað um það í mörg ár, að við yrðum að ráðast í þessa framkvæmd til að gera umbætur í fangelsismálum og tryggja betri aðbúnað, að sitja síðan uppi með það fangelsi hálftómt og langa biðlista eftir afplánun? Dómsmálaráðherra hefur brugðist við þessari stöðu sem á rætur sínar að rekja til skorts á rekstrarfjármagni. Það er vissulega búið að reisa fangelsið og ráðherra hefur lagt til að við drögum úr fjárheimildum til þeirrar starfsemi sem hefur verið haldið úti norðan heiða, á Akureyri, og breytum henni í einfaldara form. Færum fjármuni til rekstrar á Hólmsheiði og bætum við því sem upp á vantar til að geta nýtt betur þá aðstöðu sem þar er. Þetta er í grófum dráttum það sem dómsmálaráðherra hefur lagt til og ég held að geti verið til mikilla bóta.

Að öðru leyti verð ég bara að segja eins og er að það er skaði af því að bið sé eftir afplánun í langan tíma. Það er ekki ástand sem við getum sætt okkur við að sé viðvarandi. En á því er verið að taka, m.a. með þeim aðgerðum sem ég er að vísa til. Við vonumst til þess að þau auknu framlög sem er að finna í þessari fjármálaáætlun geti orðið að liði.