151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

öflun og dreifing bóluefnis, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[15:52]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Það er nauðsynlegt að fá þessa umræðu hér í dag en ríkisstjórninni hefur algerlega mistekist að upplýsa þjóðina um hvenær búið verður að bólusetja nógu marga til að hefja uppbyggingu á ný. Alger óreiða hefur einkennt skilaboð ríkisstjórnarinnar um bólusetningar og landsmenn engu nær um hvenær bóluefni berst, hvað mikið af því og hvenær bólusetningu verði lokið. Vissulega geta komið upp hnökrar en samt sem áður er algerlega augljóst að það voru mistök að treysta aðeins á að Evrópusambandið gætti hagsmuna okkar. Það er merkilegt að stjórnvöld hafi ekki hugsað varaleið. Við sjáum núna lönd, a.m.k. Þýskaland og Danmörk, sem hafa tryggt sér aukabóluefni. Sóttvarnalæknir sagði í morgun að viðræður væru við AstraZeneca um bóluefnarannsóknir og hann sé ekki búinn að gefa upp vonina með Pfizer. Hæstv. heilbrigðisráðherra sagði svo klukkutíma síðar, í dag, að ekki standi til að fara fram hjá samfloti ESB og þannig leita annarra leiða við öflun bóluefnis.

Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Af hverju ekki? Danir hafa farið þá leið og Þjóðverjar líka og það eru bæði lönd innan Evrópusambandsins.