141. löggjafarþing — 5. fundur,  18. sept. 2012.

orð ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma o.fl.

[14:15]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég hef áhyggjur af virðingu þingsins. Ég hef áhyggjur af því að hæstv. forseti tali ekki máli þingsins og komi í veg fyrir að ríkisstjórnin fótumtroði Alþingi eina ferðina enn. Ef það var eitthvað sem við ætluðum að breyta var það hið svokallaða ráðherraræði, foringjaræði sem hefur því miður birst okkur í sterkari mynd en nokkurn tíma áður.

Við framsóknarmenn lögðum okkur fram um að ná samkomulagi en af biturri reynslu töldum við nauðsyn á því að hafa samkomulagið skriflegt. Það hlýtur að vera á forræði forseta Alþingis að beita sér fyrir því að skrifleg samkomulög séu virt og að farið sé eftir þeim, að forseti standi í lappirnar gagnvart ráðherrunum og foringjaræðinu á Íslandi sem við þurfum svo nauðsynlega að losna við.