152. löggjafarþing — 5. fundur,  4. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[11:15]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér finnst mjög jákvætt að við séum að ræða þennan málaflokk, þróunarmál og þróunaraðstoð, undir þeim formerkjum sem hv. þingmaður gerir. Við heyrum það því miður hér í þessum sal, eins og í umræðunni úti í þjóðfélaginu, að kastljósinu er mjög beint að vandamálum í stað þess að horfa til þess að ekki aðeins er rétt að veita aðstoð og liðsinna heldur felast í því mikil tækifæri fyrir íslenskt samfélag ef vel er að verki staðið. Mér finnst þessi umræða því mjög jákvæð og ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir hans greinargóðu yfirferð.

Nú berum við okkur gjarnan saman við Norðurlöndin og lítum á þau sem systur- og frændþjóðir okkar og viljum nú yfirleitt standast samanburð við þær. Við erum t.d. stolt af árangri okkar í jafnréttismálum en við vitum sem er að Norðurlöndin eru sterk í þeim málaflokki. Ég hefði áhuga á að heyra þingmanninn segja okkur frá því hvernig þessi samanburður birtist honum, kannski líka út frá því hvaða vægi þessi málaflokkur fær í pólitískri umræðu og umræðu almennt séð. Telur hann að stefna og framkvæmd íslenskra stjórnvalda standist norrænan samanburð?