152. löggjafarþing — 5. fundur,  4. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[14:10]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Mig langaði að tala um einn punkt sem hann nefndi varðandi loftslagsmálin, þar eru tækifærin. Ég nefndi það hér í gær að það væru mikil tækifæri í tengslum við nýsköpun sem fælust í loftslagsmálum. Ég nefndi það einnig að við ættum að reyna að stefna að því að gera Ísland að miðstöð þekkingar og nýsköpunar á alþjóðavísu. Það er til mikið fjármagn erlendis á þessu sviði og það væri hægt að laða hingað til lands fjármagn sem er miklu meira en það sem hæstv. ráðherra loftslagsmála eða hæstv. ráðherra nýsköpunar geta nokkurn tímann gert.

Mig langaði svolítið að fá að heyra hvort hv. þingmaður tekur undir sýn mína varðandi þessi tækifæri og hvar við getum gert slíka hluti. Hann nefndi líka landbúnað og sjávarútveg. Það er fullt af tækifærum þar sem við getum verið brautryðjendur, rétt eins og við vorum brautryðjendur þegar kom að nýtingu á jarðvarma. Við höfum síðan getað tekið þá frábæru þekkingu og farið með hana út um allan heim. Ég hef séð afrakstur þess verkefnis víða um heim. Af hverju getum við ekki verið leiðandi á þessu sviði? Mig langar að heyra hvað hv. þingmanni finnst um það.