141. löggjafarþing — 5. fundur,  18. sept. 2012.

raforkumál á Norðurlandi.

[14:35]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir að vekja máls á erfiðri stöðu sem komin er upp á Norðurlandi í kjölfar óveðurs þar í síðustu viku. Það er til marks um eðli veðursins að bæði fulltrúar Rariks og Landsnets hafa tjáð sig um að þetta sé versta veður sem kerfi þeirra hafi lent í um langt árabil. Þá tala þeir um að ísingin hafi verið af þeirri stærðargráðu að ekki sé hægt að gera ráð fyrir því að bestu rafmagnsstaurar eða -stæði gætu nokkurn tímann þolað hana.

Straumleysi í marga daga er eitthvað sem ekki á að vera veruleiki hinnar tæknivæddu 21. aldar. Þegar slíkt gerist þarf fyrst og síðast að fara vel yfir þá stöðu og ferla til að læra og koma í veg fyrir að slíkt gerist aftur. Eitt af því sem hefur verið gagnrýnt er að enginn vinnuflokkur frá Landsneti sé staðsettur á Norðurlandi. Sá lærdómur verður af þessu áhlaupi dreginn að farið er að undirbúa staðsetningu slíks flokks á Norðurlandi. Það er gott til þess að vita að reynslan leiðir strax til aðgerða.

Það var fleira en rafmagnsstaurar sem létu undan veðrinu á Norðurlandi. Búfé fennti og þrátt fyrir hetjulegar björgunaraðgerðir hundraða sjálfboðaliða er enn saknað hundraða fjár á Norðurlandi. Girðingar eru víða mjög illa farnar. Það stórsér á skógi og öðrum gróðri. Það getur enginn sett sig algjörlega í spor þess fólks sem horfir nú upp á búfé sitt tapast og jafnvel drepast og er óöruggt um afkomu sína, framtíðaratvinnu og atvinnuhorfur.

Við megum ekki gleyma mannlega þættinum í náttúruhamförum eins og þeim sem hér um ræðir. Það þarf að hlúa að fólkinu og aðstoða það við að upplifa sig öruggt á ný, bæði félagslega og efnahagslega, því það er afar mikilvægt fyrir allt Ísland og alla Íslendinga að byggð haldist í landinu.

Hetjurnar sem börðust fyrir lífsafkomu sinni við veðrið fyrir norðan eiga það skilið að við stöndum með þeim eins og nokkur kostur er. Peningalega mun Bjargráðasjóður vonandi fá það fé sem til þarf til að bregðast við þessum afar sérstöku aðstæðum en ekki má gleyma því að áfallahjálp og annar félagslegur og tilfinningalegur stuðningur þarf líka að vera til staðar fyrir þá sem slíka hjálp þurfa.