144. löggjafarþing — 5. fundur,  15. sept. 2014.

hafnalög.

5. mál
[17:17]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna komu þessa frumvarps og harma um leið að við höfum ekki náð að klára það í vor. Nefndin hafði fjallað um málið og náð góðri sátt um það þannig að ég hlakka bara til þeirrar vinnu aftur í nefndinni núna og veit að við munum væntanlega klára þetta hratt og örugglega.

Ég legg líka áherslu á öll þau sóknarfæri sem byggjast í höfnum landsins. Þess vegna er mikilvægt að bæði rekstrarumhverfi þeirra sé styrkt og að við gerð samgönguáætlunar verði horft til þessara tækifæra, t.d. hvernig ýmis tækniþróun er í fraktsiglingum milli landa og þá líka í gegnum ferjuflutninga þar sem bæði vörur og fólk er ferjað milli Íslands og meginlandsins. Þarna eru gríðarleg tækifæri sem geta skapast fyrir matvælaframleiðendur okkar til að koma sinni vöru ferskari út á markað og lengja þar af leiðandi tímann í hilluplássi úti sem er mjög mikilvægt. Þegar við erum líka að flytja ýmsar einingar til landsins er hagkvæmara að gera það í gegnum ferjusiglingar og annað. Þá þurfum við að hafa hafnir til staðar sem geta brugðist við þessu. Þess vegna er þetta mjög brýnt mál.

Um leið er komin núna mikil þörf á að viðhalda þeim hafnarmannvirkjum sem við höfum í dag. Mörg þeirra eru farin að hafa þungatakmarkanir á höfnunum þannig að við nýtum ekki þá fjárfestingu sem við höfum farið í af því að hún þarfnast lagfæringar. Það eru mjög kostnaðarfrekar lagfæringar sem hafnarsjóðir munu aldrei geta borið sjálfir. Að minnsta kosti þarf áhrifa þessa frumvarps að gæta svolítið lengi áður en það kemur fram. Þetta þurfum við að hugsa núna samhliða því sem þörfin er mikil í vegakerfinu, samgöngumálum og annars staðar. Þessi mikilvægi þáttur má alls ekki gleymast og vildi ég bara vekja athygli á því.