145. löggjafarþing — 5. fundur,  14. sept. 2015.

almannatryggingar.

3. mál
[17:25]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég kem nú bara hingað upp til þess að fagna þessu frumvarpi. Ég vona svo sannarlega að það fái gott brautargengi í þinginu og verði rætt fram og til baka og tekið tillit til allra þátta. Hv. þm. Freyja Haraldsdóttir fór vel í gegnum það áðan hvað okkar hugsun í Bjartri framtíð er um þetta og hvað okkur finnst.

Ég kem líka hingað upp til að velta því svolítið upp að árið 2015 þurfum við að standa í þessum sporum, að öryrkjar og jafnvel ellilífeyrisþegar þurfi að koma með betlistaf til ríkisstjórnarinnar til að geta lifað mannsæmandi lífi. Mér finnst það hreint með ólíkindum. Það hefur komið margoft fram hérna í umræðunni í dag og þingmenn hafa bent á að gjöld hafi verið lækkuð, skattar, veiðigjöld og annað, ég nenni ekki að vera að fara í gegnum það allt saman, það er búið að fara í gegnum það. Það segir okkur samt að þessi ríkisstjórn hefur markvisst afsalað sér tekjum.

Síðan kemur í ljós að tekjuafgangur af fjárlagafrumvarpinu eru 15,2 eða 15,3 milljarðar á þessu ári, sem er glæsilegt. Það er alveg frábært. Maður gleðst yfir því að það sé verið að vinna að málum, borga niður skuldir og að þetta sé tekjuafgangur. Ég hef velt því fyrir mér hversu glæsilegt það sé á meðan við getum ekki sinnt þessum hópi fólks og getum ekki ráðstafað til hans lágmarksframfærslu. Mér finnst það ekkert mjög gleðilegt.

Við ákváðum að borga skatta. Það er svona samfélagssáttmáli að borga skatta til að reka velferðarkerfi, menntun barnanna, heilbrigðiskerfi, grunnþjónustuna alla, vegakerfið og til öryrkja og fatlaðra, fólks sem getur ekki unnið fyrir sér sjálft. Það er sáttmáli sem við gerum um að borga skatta fyrir þetta fólk svo að það geti lifað mannsæmandi lífi, sem það gerir ekki í dag í stórum stíl. Hérna kemur fram að 10.685 lífeyrisþegar ná ekki viðmiði um lágmarkslaun er alveg hreint með ólíkindum í landi eins og Íslandi.

Við lesum í fréttum að sjávarútvegsfyrirtæki borga sér fleiri milljarða í arð. Fyrirtæki ganga vel, ferðaþjónustan velti milljörðum og lúxusbílar seljast sem aldrei fyrr. Á sama tíma getum við ekki borgað lágmarkslífeyri til fólks sem þarf virkilega á því að halda. Þetta er náttúrlega skammarlegt og jafn skammarlegt og lægstu launin í þessu landi. Þau eru og hafa alltaf verið skömm fyrir þetta samfélag.

Fyrir mér er líka stór spurning í hvernig samfélagi við viljum búa á Íslandi. Hvernig samfélag viljum við hafa hér? Er það samfélag sem tekur utan um þegnana sína, hugsar um þá og hlúir að stórum sem smáum? Er það samfélag samkenndar og samhygðar og umhyggju og kærleiks eða er það einstaklingshyggja og græðgi sem á að ráða ríkjum sem hefur ráðið ríkjum allt of lengi á Íslandi?

Ég gleðst yfir því ef fólki gengur vel og það er ríkt og efnað. Það er oft vísbending um að fólk er duglegt, sem er frábært. Við íslendingar erum duglegir. Við höfum alltaf verið það. Ég fagna því ef fólk hefur komist til álna og á nóg af peningum, en ég vil líka að það borgi skatta. Það eru allt of margir á Íslandi sem komast upp með það borga ekki tekjuskatt, allt of margir, sem gerir það að verkum að við getum ekki rekið þetta velferðarsamfélag almennilega.

Mér er svo sem alveg sama hvaða loforð ríkisstjórnin gaf eða hvað fyrri ríkisstjórn gaf, við lifum í dag og þetta er spurning um það hvernig við ætlum að gera þetta. Mér finnst það líka alveg ótrúlega skammarlegt að fólk sem er á ellilífeyri þurfi að berja að dyrum hjá ríkisstjórninni og ríkissjóði og biðja nánast um ölmusu til að geta lifað af. Fólkið sem er að fara á ellilífeyri núna er fólkið sem ól okkur upp og byggði upp þetta land, reif það upp eftir seinna stríð og sumt lifði kreppuna miklu. Þetta er fólkið sem vann myrkranna á milli við að byggja upp þetta samfélag og við getum ekki veitt því lágmarksframfærslu. Þetta er skammarlegt í einu orði sagt.

Við eigum að búa samfélagið þannig og gera það þannig úr garði að hér geti allir lifað góðu lífi án þess að hafa áhyggjur. Það kom til mín eldri borgari um daginn, ef ég má kalla hann það, eldri maður, og spurði: Hvað eru þeir að gera okkur? Hvernig á ég að lifa af 170 þús. kr. á mánuði? — Hann er ekki bara eldri borgari heldur líka öryrki eftir að hafa lent í slysi. Þetta er maður sem hefur unnið alla sína tíð, harðduglegur, við að koma upp fjölskyldu og hann getur varla lifað.

Í ljósi þess sem æðstu menn þjóðarinnar, hæstv. forsætisráðherra, fjármálaráðherra og fleiri, segja um stöðuna á Íslandi í dag, að hér sé allt á uppleið, þá held ég að það sé alveg rétt hjá þeim, ég held að hér sé allt á bullandi uppleið. Atvinnuleysi fer niður og atvinnugreinar vaxa og það virðist vera allt í blússandi gósentíð en þá getum við ekki skaffað 300 þús. kr. lágmarkslaun. Mér finnst 300 þús. kr. lágmarkslaun allt of lítið, allt of lág upphæð. Það er undir lágmarksviðmiðum velferðarráðuneytisins til framfærslu. Mér finnst það bara allt of lítið, ekki síst í ljósi þess sem millistjórnendur og stjórnendur og eigendur stórra fyrirtækja skammta sér í laun; kannski eru það eigendur sömu fyrirtækja og borga 200–250 þús. kr. lágmarkslaun í erfiðustu störfum landsins.

Ég verð oft svolítið æstur þegar ég er að pæla í þessum málum. Ég er sjálfur búinn að vinna sem verkamaður nánast allt mitt líf og ég veit hvað það er að þurfa að hafa fyrir lífinu. Ég hitti fólk á nánast hverjum einasta degi sem er enn að berjast í þessum störfum, vinnur myrkranna á milli og á varla í sig og á, getur varla rekið fjölskyldu, getur ekki leyft sér nokkurn skapaðan hlut. Það er sorglegt að þannig sé staðan á Íslandi í dag, enn þá.

Það er eitt sem víst er að það skortir ekki peninga í landinu, það er alveg á hreinu. Þeim er misskipt og þeim er illa dreift um samfélagið. Eins og ég sagði áðan komast allt of margir upp með það að borga ekki skatta, komast fram hjá því með einhverjum fjármagnstekjuskatti og alls kyns skattareglum sem gera að verkum að þeir borga enga skatta. Þeir sem borga fjármagnstekjuskatt borga ekki til sveitarfélaga sinna, hann rennur allur í ríkissjóð. Nú eru sveitarfélögin með málefni fatlaðra og eru að kikna undan því, kannski vegna þess að þau ná ekki nógu miklum tekjum.

Ég vona að þetta frumvarp nái fram að ganga sem eitt skref í því að byggja hér upp gott samfélag og að við höldum áfram í sameiningu, alveg sama hvort við erum í stjórn eða stjórnarandstöðu, að tryggja fólki sem vinnur erfiðustu störfin og öryrkjum og ellilífeyrisþegum gott líf.

Ég er búinn að hlusta það í umræðunum á þingi undanfarið, í vor og í umræðunni í fjölmiðlum að hér sé allt á blússandi uppleið, eins og ég sagði áðan, en það er ekki að sjá þegar maður talar við fólk. Af hverju er fólk óánægt? Af hverju mælist Framsóknarflokkurinn með 11% í skoðanakönnunum ef hann stendur sig svona vel? Það er einhver ástæða fyrir því, það er bara þannig. Ef ástandið er svona gott þá eru menn eitthvað að misskilja það.

Ég hef áður nefnt skuldaleiðréttinguna. Það var loforð og framsóknarmenn stóðu við það og það er svo sem gott og gilt, en ég hefði ráðstafað þessum peningum öðruvísi, einmitt í velferðarkerfið.

Svo segi ég það líka, ég veit ekki hvort það er allt í lagi að segja það en það er 15,3 milljarða afgangur á ríkissjóði á þessu ári, eða reiknað með því. Ef stöðugleikaframlagið sem á að koma til ríkissjóðs á næsta ári gengur eftir þá verður aldeilis hægt að nota það til að borga niður skuldir í staðinn fyrir að vera með 15 milljarða afgang. Það er hægt að nota þann afgang til að tryggja þessum hópum og heilbrigðiskerfinu meiri pening líka, ég hefði haldið það að það væri hægt.

Fyrir utan það þá er ég algjörlega á móti þessum skattalækkunum. Ég skil ekki hvers vegna á að lækka skatta þó að landið sé að rísa og auka jafnvel þannig þenslu.

Eins og ég segi þá vona ég að þetta frumvarp nái fram að ganga og við tökum svo höndum saman öll sem eitt, sem sitjum á löggjafarþinginu og ríkisstjórnin, um að tryggja það til framtíðar að við þurfum ekki að vera að rífast um það á Alþingi að eldri borgarar og ellilífeyrisþegar og örorkubótaþegar þurfi að berja að dyrum Alþingis alla daga, allt árið um kring.