140. löggjafarþing — 50. fundur,  30. jan. 2012.

þátttaka Íslendinga á ólympíuleikum fatlaðra.

297. mál
[16:24]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Ólympíumót fatlaðra er stærsta íþróttakeppni fatlaðra og er haldið strax í kjölfarið á Ólympíuleikunum sjálfum þar sem sömu keppnisstaðir, ólympíuþorp og umgjörð er nýtt. Ólympíumótið 2012 fer fram 29. ágúst til 9. september og er þannig hluti af tveggja mánaða samfelldri íþróttahátíð í London sem hefst með Ólympíuleikunum og lýkur með Ólympíuleikum fatlaðra. Beinn kostnaður vegna þessarar þátttöku er áætlaður um 3,5 millj. kr. og eru þá undanskilin öll undirbúningsmót, æfingabúðir og annað sem afreksfólk ÍF tekur þátt í með það að markmiði að ná tilskildum lágmörkum á móti.

Auk framlags ríkisins til reksturs Íþróttafélags fatlaðra fékk sambandið í um 20 ár aukafjárveitingu vegna undirbúnings og þátttöku fatlaðs íþróttafólks á Ólympíuleikunum. Þessi aukafjárveiting var meðal annars vegna undirbúnings við þátttöku Íslands á þeim leikum. Á ólympíuárum var þessi upphæð hækkuð um helming, var til að mynda 1,5 millj. kr. 2007 og 3 millj. kr. á ólympíuárinu 2008.

Í fjárlögum ársins 2012, á ólympíuári, fékk sambandið úthlutað 21,5 millj. kr. Á árinu 2008 nam sú upphæð 22,6 millj. kr. auk 3 millj. kr. aukafjárveitingar vegna þátttöku Íslands á Ólympíuleikunum það ár. Samtals hefur Íþróttasamband fatlaðra verið skorið niður um 16% á milli ólympíuára. Engin aukafjárveiting vegna ólympíuverkefna hefur verið árin 2009, 2010 og 2011. Í því sambandi ber að geta þess að Íþróttasamband fatlaðra tengist ekki fjárhagslega Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands eins og önnur sérsambönd heldur er með sjálfstæðan fjárhag. ÍF hefur verið sérliður í fjárlögum íslenska ríkisins sem hefur reynst grundvallarþáttur í öllum rekstri.

Íþróttasamband fatlaðra er ekki ólympískt samband og sér ÍF því alfarið um fjármögnun varðandi allan undirbúning og kostnað við þátttöku í Evrópu-, heims- og Ólympíuleikum fatlaðra. Vert er að geta þess að samvinna og samstarf við Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands hefur alltaf verið með miklum ágætum og fatlaðir íþróttamenn notið ýmissa fríðinda hjá ÍSÍ, sem sagt aðgangs að afreksmannasjóði ÍSÍ, stoðteymum o.fl.

Virðulegi forseti. Ég vek athygli á þessari stöðu íþróttasambandsins og þeirri staðreynd að Ólympíuleikar eru fram undan þar sem við ætlum svo sannarlega að standa okkur vel. Fatlaðir einstaklingar frá Íslandi unnu ekki til verðlauna á síðustu Ólympíuleikum en hafa unnið til fjölmargra verðlauna á öðrum Ólympíuleikum frá árinu 1980. Ég spyr því (Forseti hringir.) hæstv. menntamálaráðherra hvort hún hyggist ekki beita sér fyrir því að aukaframlagið verði veitt þannig að (Forseti hringir.) hægt verði að búa sómasamlega að fötluðum íþróttamönnum á komandi Ólympíuleikum.