150. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2020.

málefni innflytjenda.

457. mál
[14:22]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir að þetta frumvarp sé komið fram. Þótt það sé ekki mjög langt eða mikið hygg ég að það sé mikilvægt. Mig langaði hins vegar til þess að spyrja hæstv. ráðherra aðeins út í persónuupplýsingarnar sem fjallað er um í frumvarpinu að þurfi að flytja milli stofnana. Ég fæ ekki séð í fljótu bragði í frumvarpinu að það hafi verið sérstakt samráð haft við Persónuvernd um samningu frumvarpsins. Kannski telur ráðherra ekki þörf á því, kannski á ekki að vera þörf á því, en mér fannst mikilvægt að það kæmi fram vegna þess að eðli málsins samkvæmt er oft um að ræða einstaklinga sem koma hingað af viðkvæmum ástæðum og það geta verið upplýsingar um þá og í sumum tilfellum þarf ekki meira en nafnið til þess að það sé farið að ganga nær hagsmunum þeirra en mætti búast við ef þeir væru ekki að flýja þær aðstæður sem sumir þeirra eru að flýja. Þá geta upplýsingar sem aðrir telja ekki vera viðkvæmar í hinu daglega lífi, svo sem nafn og heimilisfang eða hvaðeina, orðið viðkvæmari en ella. Þetta var fyrri spurningin sem mig langaði að inna hæstv. ráðherra eftir.

Hin er síðan hvort þetta frumvarp sé á einhvern hátt afleiðing samþykktar Sameinuðu þjóðanna um farendur sem olli þó nokkru fjaðrafoki hérna um daginn, alfarið vegna misskilnings þeirra gagnrýnenda sem höfðu mestar áhyggjur af því góða máli. Ég finn ekki umfjöllun um það í frumvarpinu og gerir því ekki ráð fyrir því en ég get alveg sagt að að mínu mati virðist frumvarpið vera í samræmi við þá góðu áætlun, alla vega ekki í mótsögn við hana. Mig langaði að inna hæstv. ráðherra eftir því hvort sú samþykkt hafi komið undirbúningi þessa máls eitthvað við og ef ekki þá kannski bara í leiðinni á seinustu sekúndunum hvort sú samþykkt hafi verið eitthvað til umfjöllunar í ráðuneytinu í samhengi við undirbúning annarra mála eða málaflokksins almennt.