150. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2020.

málefni innflytjenda.

457. mál
[14:32]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanninum þetta innlegg. Varðandi fyrsta liðinn, hvort til álita komi að þeir sem ekki hafi fengið stöðu í landinu geti fengið þjónustu hjá Fjölmenningarsetri: Þeir geta auðvitað leitað þangað en þessi samræmda móttaka lýtur að því sem tekur við eftir að viðkomandi hefur fengið þjónustu. Þá færist forræði á málinu í raun frá dómsmálaráðuneyti yfir til félagsmálaráðuneytis. Í grunninn er það það sem gerist við þá ákvörðun sem við vorum að vinna að með samræmdri móttöku. Nei, það kom ekki með formlegum hætti til skoðunar hvort breyta ætti þeirri verkaskiptingu eitthvað, hún hefur verið nokkuð skýr fyrir. Við í félagsmálaráðuneytinu lítum svo á, og ég lít svo á, að okkar hlutverk sé að taka við þegar búið er að taka ákvörðun. En vissulega geta einstaklingarnir leitað til Fjölmenningarseturs líkt og aðrir.

Varðandi bráðabirgðaatvinnuleyfi er það ekki formlega til skoðunar í ráðuneytinu eða hjá Vinnumálastofnun að gera breytingar á því. Hins vegar er í gangi vinna og auðvitað er það eitthvað sem mætti skoða. Ég treysti því að það sé undir í þeirri vinnu sem nú er í gangi, eða er að fara af stað, á vegum dómsmálaráðherra, sem félagsmálaráðuneytið kemur að og eins menntamálaráðherra, auk fulltrúa stjórnmálaflokka, og ég hef skilið það svo. Þar er verið að ræða stöðu innflytjenda í víðara samhengi. En við erum ekki með neina sjálfstæða vinnu í gangi í ráðuneytinu hvað það snertir svo að því sé svarað skýrt.