150. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2020.

málefni innflytjenda.

457. mál
[15:42]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst heyrðist mér hv. þingmaður ætla að halda því fram að ég hafi ekki skilið hann rétt en svo útskýrði hann að ég hefði skilið hann alveg rétt, að menn ættu að mega koma hvaðan sem er ef þeir vildu vinna á Íslandi eða þá í Bretlandi væntanlega eða Bandaríkjunum eða hvað sem er, með öðrum orðum: Opin landamæri. Eða vildi hv. þingmaður bara draga mörkin við þau lönd sem hann nefndi, Albaníu, Georgíu, Makedóníu og Írak? Hvað með fjölmenn ríki í Austur-Asíu þar sem laun eru kannski 5% af því sem þau eru hér? Á það fólk þá að hafa óhefta möguleika til að koma inn á íslenskan vinnumarkað og keppa við íslenskt vinnuafl? Það var ekki annað að heyra — nema hv. þingmaður hafi eingöngu verið að hugsa um þessi fjögur lönd og ekki nefnt þau bara sem dæmi — en að hv. þingmaður vildi opin landamæri. Þá ítreka ég það sem ég sagði áðan, eins og danskir sósíaldemókratar hafa gert sér grein fyrir, að þar fer ekki saman norrænt velferðarkerfi og opin landamæri.