139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[11:54]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég minni á að í fyrra var framfærslugrunnur námsmanna hækkaður um 20%, það var eitt af fyrstu verkum þessarar ríkisstjórnar. Ég get tekið undir þau meginsjónarmið að það skipti máli að fjárhæð námslána fylgi þeim fjárhæðum sem hv. þm. Birkir Jón Jónsson nefndi áðan og bendi á að meðalráðstöfunartekjur námsmanna núna eru um 180 þús. kr. en þessi tillaga byggir hins vegar á svigrúmi sem er ekki til staðar. Hún byggir á þeirri hugmynd að hér séu innheimtir 40 milljarðar kr. í fyrirframskattlagningu séreignarsparnaðar sem raunar var felld hér áðan og ég vil líka nefna að er einskiptisaðgerð. Tillagan tekur því ekki á því að þessi hækkun geti varað til lengri tíma.

Ég styð það að þetta verði gert þegar svigrúm skapast en það er því miður ekki fyrir hendi og þess vegna segi ég nei.