139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[15:59]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Ég sé það, frú forseti, að við hæstv. forsætisráðherra verðum seint sammála um að nýi samningurinn sé miklum mun betri en þeir sem áður voru samþykktir. Mér sýnist sem hæstv. forsætisráðherra sjái ekki beint mikinn mun á samningunum tveim. Það eina sem er sanngjarnt að gera þegar við erum að bera saman stöðu okkar í dag og stöðu þingsins á þeim tíma er að skoða málið út frá þeim forsendum sem við höfðum þá úr að spila. Í upphafi lagði ríkisstjórnin til að við tækjum okkur samning sem hún taldi sjálf að fæli í sér 490 milljarða kr. heildarskuldbindingu. Það er staðreynd málsins og kemur fram í frumvörpum ríkisstjórnarinnar sjálfrar.

Mig langar aðeins til að segja um þetta sem hæstv. ráðherra segir um möguleikana á samningum fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu að það var aldrei neinn samningur. Það voru hugmyndir um eitthvað lægri vaxtakjör, ekki eins lága vexti og er nú verið að ræða, og mér heyrðist hæstv. forsætisráðherra segja sjálf að þar hefðu vextirnir einir á árunum 2009 og 2010 (Forseti hringir.) verið um 70 milljarðar kr., þ.e. um 50 milljörðum kr. hærri en það sem verið er að ræða hér í dag. (Forseti hringir.) Hvers vegna að rifja upp þennan vonda samning sem þá stóð til boða?