150. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2020.

Kristnisjóður o.fl.

50. mál
[18:08]
Horfa

Flm. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tel þetta ekki vera nein rök fyrir þessu ákvæði sem hv. þingmaður nefndi. Það að það hafi verið einhverjar aðstæður til staðar 1907 sem hafi enn þá verið til staðar 1970 þýðir ekki að ákvæðið sé lögmætt, á sömu forsendum sem voru til staðar fyrir meira en 100 árum, núna þegar það er komið kirkjujarðasamkomulag og samband ríkis og kirkju hefur breyst, í meginatriðum til hins betra þótt við berjumst enn þá um þetta stjórnarskrárákvæði sem mér er svo annt um að losna við eins og hv. þingmaður veit.

Ég furða mig á því að hv. þingmaður furði sig á því að ég taki trúarsannfæringu hv. þingmanns inn í umræðuna um það hvernig hann vilji hafa fyrirkomulagið vegna þess að ég tel það óhugsandi að einhver sem lítur á málið efnislega án tillits til trúarsannfæringar myndi vera á skoðun hv. þingmanns. Ég aðhyllist ákveðna lífsskoðun og er í félagi og hef verið í stjórn lífsskoðunarfélags og konan mín er formaður þess félags. Ég myndi aldrei standa fyrir einhverju lagafyrirkomulagi sem myndi sérstaklega (Forseti hringir.) setja einhver forréttindi eða viðhalda forréttindum fyrir það félag. Ég berst á móti því reyndar, t.d. þessari klausu, (Forseti hringir.) vegna þess að ég geri greinarmun á minni eigin trúar- og lífsskoðunarsannfæringu annars vegar (Forseti hringir.) og hlutverki mínu sem löggjafinn hins vegar.