150. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2020.

kristnisjóður o.fl.

50. mál
[19:01]
Horfa

Flm. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er fullkominn misskilningur hjá hv. þingmanni að þetta snúist á nokkurn hátt um að knésetja eða einu sinni þvælast fyrir þjóðkirkjunni. Megi hún lifa og dafna sem lengst og sem best. Það eina sem hér er talað fyrir er jafnræði fyrir lögum og jafnræði í reynd jafnvel þó að til séu einhverjar heimildir til að mismuna trúfélögum á grundvelli þess að nógu margir þingmenn aðhyllist prívat og persónulega trúarkennisetningar kirkjunnar. Í grundvallaratriðum eigum við, og þetta er pólitísk skoðun, að koma fram við trú- og lífsskoðunarfélög og öll slík sambærileg félög á jafnræðisgrundvelli, jafnvel þó að við værum ekki með skrifaða stjórnarskrá. (Gripið fram í.)

Það er eitt sem ég vil leiðrétta í málflutningi hv. þingmanns. Hann segir að það hafi verið búið að reifa þetta allt saman en hann gerir það sem hann gerir svo oft í sínum ræðum að hann gleymir stundum að hann er þingmaður en ekki lögmaður. Það hefur ekki reynt á stjórnarskrána eins og hún er án 62. gr. stjórnarskrárinnar. Það hefur ekki reynt á það vegna þess að því miður er hún enn til staðar, þannig að ég gef ekki mikið fyrir þann tiltekna málflutning. En svo verð ég líka að segja, fyrst ég hef þennan tíma til að svara hv. þingmanni um það að Píratar séu að byrja á röngum enda: Ég tek eftir því að hv. þingmaður stingur alltaf upp á því að við gerum eitthvað annað en við erum að gera, alveg sama hvað við erum að gera. (Gripið fram í.)

Hér er ekki lagt til að 62. gr. verði afnumin, virðulegi forseti. Þetta frumvarp felur það ekki í sér og reyndar er ástæðan fyrir því að sá sem hér stendur hefur ekki lagt það fram sú að mér er meira í mun að koma á nýrri stjórnarskrá þar sem er því miður þjóðkirkjuákvæði sem ég mun greiða atkvæði með og síðan reyna að afnema með samþykki kjósenda. Hér er lagt til að byrja á þeim enda sem hv. þingmaður leggur til sem er að fara að breyta lögum um þjóðkirkjuna sem við teljum að eigi ekki að vera eins og þau eru. Ég fæ því ekki betur séð en við séum að fara að annars ágætri ráðleggingu hv. þingmanns.