145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:27]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Páli Val Björnssyni fyrir svarið. Út frá skilgreiningum er hér góðæri, sannarlega, í það minnsta erum við á toppi í hagsveiflu. Hv. þm. Helgi Hjörvar fór ágætlega yfir hagsveiflu og greiningu á þessu. Samkvæmt skilgreiningunni þýðir það að búinn er að vera hagvöxtur hér, þótt hægur hafi verið, í fjögur ár. Talað er um að lengd hagsveiflu sé 7–12 ár en það er misjafnt. Hrunið hér gerðist með einum smelli, eins og hv. þingmaður kom reyndar ágætlega inn á í ræðu sinni.

Þá verðum við að styðjast við mælikvarða til að átta okkur á því hvort við erum á réttri leið með að skipta kökunni rétt, eins og hv. þingmaður orðaði það nákvæmlega. Ég vil benda á lífskjarakönnun Hagstofunnar sem segir okkur að Gini-stuðullinn hafi aldrei verið lægri, sem merki um jöfnuð, (Forseti hringir.) hér hafi aldrei verið jafn fáir undir lágtekjumörkum í langan tíma, eða 7,9%, og dreifing tekna á Íslandi sé jafnari (Forseti hringir.) milli fólks en áður hafi sést í þessari lífskjararannsókn árið 2014.